200 mílur | Morgunblaðið | 3.5.2023 | 8:19
Baldri var siglt til Reykjavíkur á mánudagskvöldið og gert er ráð fyrir því að ferjan verði komin aftur í siglingar á Breiðafirði á miðvikudaginn í næstu viku. mbl.is/sisi
Breiðafjarðarferjan Baldur er komin til Reykjavíkur þar sem hún fær reglubundið viðhald fyrir annir sumarsins en búist er við metfjölda erlendra ferðamanna í ár.
Um er að ræða hefðbundna og reglubundna slipptöku sem framkvæmd er á þurru landi annað hvert ár. Baldri var siglt til Reykjavíkur á mánudagskvöldið og gert er ráð fyrir því að ferjan verði komin aftur í siglingar á Breiðafirði á miðvikudaginn í næstu viku.
Samkvæmt upplýsingum frá Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur, framkvæmdarstjóra Sæferða í Stykkishólmi, mun farþegaskipið Særún sigla þrisvar í Flatey meðan Baldur er í slipp.
Fyrsta ferð var í gær og næst verður siglt frá Stykkishólmi á föstudaginn klukkan 13.30. Þá verður aftur siglt á sama tíma á sunnudaginn.