Enski knattspyrnumaðurinn Marcus Rashford er á óskalista spænska stórliðsins Barcelona en Rashford hefur ekki átt fast sæti í liði Manchester United á tímabilinu.
Það er Manchester Evening News sem greinir frá þessu en fréttir bárust af því á dögunum að Rashford vildi yfirgefa herbúðir enska liðsins.
Framherjinn, sem er 24 ára gamall, er uppalinn hjá félaginu og hefur leikið 297 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 93 mörk og lagt upp önnur 58.
Rashford hefur einungis byrjað 10 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur skorað fjögur mörk en líkt og aðrir leikmenn liðsins hefur hann verið talsvert gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á leiktíðinni.
Framherjinn er samningsbundinn United til sumarsins 2023 en United gæti selt hann í sumar fyrir 85 milljónir punda.