8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Barnastarf SÁÁ hlýtur barnamenningarverðlaun

Skyldulesning

Frá afhendingu verðlaunanna í Vatnsmýrinni í dag. Einar Hermannsson formaður …

Frá afhendingu verðlaunanna í Vatnsmýrinni í dag. Einar Hermannsson formaður SÁÁ, Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur SÁÁ og Valgerður Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna.

Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna 2020 voru afhent í dag og var það barnastarf SÁÁ sem hlaut verðlaunin. Auk verðlaunanna fær SÁÁ 5 milljónir til að verja til sálfræðiþjónustu fyrir börn sem eiga aðstandendur sem berjast við fíkn.  

„Það er mat stjórnar og fagráðs Velferðarsjóðs barna að SÁÁ hafi lyft grettistaki í áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi og eflt skilning á því hvernig sjúkdómurinn hefur áhrif á fjölskyldur þeirra sem glíma við hann, ekki síst börn. Það er mikilvægt að gera samtökunum kleift að bjóða öllum börnum, sem þurfa, aðstoð sálfræðings til að kljást við afleiðingar þess að alast upp við slíkar aðstæður og aðrar áskoranir sem þau mæta,“ segir í tilkynningu frá Velferðarsjóði barna. 

Voru það Einar Hermannsson formaður SÁÁ og Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur sem tóku við verðlaununum fyrir hönd SÁÁ. 

Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur SÁÁ.

Ingunn Hansdóttir yfirsálfræðingur SÁÁ.

Ingunn Hansdóttir sagði þennan pening koma sér vel og mun hann renna til þess að geta veitt fleiri börnum, sem búa við fíknisjúkdóm, sálfræðiþjónustu.  

„Við erum afskaplega þakklát fyrir að fá þennan stuðning til að sinna þessu verðuga verkefni sem er að hjálpa börnum sem eru í fjölskyldum þar sem er fíknisjúkdómur. Þau þurfa að fá hjálp til þess að aðlagast til að koma betur út úr sínum aðstæðum,“ sagði Ingunn.  

Markmið Velferðarsjóðs barna er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi. Á þessu ári hefur sjóðurinn úthlutað um 37 milljónum til velferðarmála barna.

Í stjórn sjóðsins sitja Kári Stefánsson, Ingibjörg Pálmadóttir og Valgerður Ólafsdóttir. 

Innlendar Fréttir