BB.is – Frétt – Útgerð Júlíusar ein af burðarstoðum HG
Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. hefur engin áform um að hætta útgerð frystitogarans Júlíus Geirmundssonar ÍS 270 en eins og kunnugt er berast fréttir víðs vegar að af landinu af fyrirtækjum sem eru að hætta útgerð frystitogara vegna breyttra rekstrarskilyrða. Nú síðast var allri áhöfn frystiskipsins Brimnes RE sagt upp. Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Brims hf., segir í samtali við Morgunblaðið, að með gríðarlegri hækkun veiðigjalda á síðustu árum hafi rekstrargrundvöllur frystitogara brostið.
„Útgerð Júlíusar er ein af burðarstoðunum í okkar rekstri og við munum gera hann út áfram, það er alveg á tæru. Við þurfum frystiskip til að ná í grálúðu og fleiri tegundir en ísfisktogararnir munu veiða megnið af þorskinum,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG. Hann tekur undir með Guðmundi að veiðigjöldin séu íþyngjandi og leggist sérstaklega hart á frystiskipin. „Það var búið að vara við þessu í fjögur ár en það var ekki hlustað. Kerfið eins og það er núna mun leiða til samþjöppunar og það er eitthvað sem við hér á Vestfjörðum viljum ekki sjá. Ég treysti á að sitjandi stjórnvöld átti sig á að veiðigjaldakerfið er meingallað.“
Einar Valur segir að veiðigjald frystitogara taki ekki tillit til mikilla fjárfestinga og hás launakostnaðar í útgerð þeirra og þá þarf að endurskoða þorskígildisstuðlana sem er einn af stofnum veiðigjaldanna. „Skatturinn leggst svo misþungt á útgerðir og ekki bara á frystitogaraútgerðir heldur einnig á litlar einyrkjaútgerðir sem margar hverjar munu gefast upp.“ Í úttekt Morgunblaðsins á þróun í frystitogaraútgerð segir: „Útgerð frystitogara, þar sem bolfiskur er unninn um borð, ruddi sér til rúms upp úr 1980. Óx henni mjög ásmegin næstu ár þar á eftir. Flestir urðu þessir togarar árið 1993, alls 35 talsins, en í upphafi þessa árs voru þeir nítján.
Í byrjun síðasta árs ákvað HB Grandi að leggja frystitogaranum Venus HF og breyta Helgu Maríu AK í ísfisktogara. Þegar breytingarnar voru kynntar kom fram að sjómönnum félagsins myndi væntanlega fækka um 34, en störfum í landvinnslu fjölga um 50. Venus var nýlega seldur til Grænlands fyrir 320 milljónir, en hann var elsti togari félagsins, smíðaður á Spáni 1973. Þorbjörn hf. í Grindavík vinnur nú að endurskipulagningu útgerðar frystitogara sinna. Einn þeirra, Hrafn Sveinbjarnarson, verður lengdur og honum breytt. Hrafn GK verður seldur eða honum lagt í lok þessa fiskveiðiárs. Endurskipulagningin leiðir til uppsagna áhafna og endurráðningar, vegna breyttrar útgerðar.
Ögurvík hefur lagt frystitogaranum Frera RE og hefur hann verið á söluskrá síðustu mánuði. Fyrirtækið Stálskip í Hafnarfirði sagði fyrir áramót upp áhöfn frystitogarans Þórs HF, alls 40 manns. Skipið hefur verið selt úr landi og kvóti innan lögsögu seldur Síldarvinnslunni í í Neskaupstað og Gjögri hf. á Grenivík. Útgerðarfélag Akureyringa ehf. keypti úthafsveiðiheimildir félagsins.
Frystitogarinn Örvar SK verður seldur úr landi, en togarinn er einn af þremur sem gerðir eru út af FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki. Sautján manns eru í áhöfn og að teknu tilliti til vaktaskiptakerfis verður 30 manns sagt upp.