-1 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

BBC lofar að komast að sann­leikanum um víð­frægt við­tal við Díönu prinsessu

Skyldulesning

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur heitið því að komast að sannleikanum um víðfrægt viðtal sem fréttamaður BBC, Martin Bashir, tók við Díönu prinsessu fyrir þáttinn Panorama árið 1995.

BBC hefur ákveðið að fram fari óháð rannsókn á því hvernig það kom til að Díana veitti Bashir viðtalið en Charles Spencer, bróðir Díönu, telur að blekkingum hafi verið beitt til þess að fá hana í viðtalið.

23 milljónir manna horfðu á viðtalið sem var afar persónulegt. Díana svaraði meðal annars spurningum um líðan sína og ástand hjónabands síns og Karls Bretaprins.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í mánuðinum sakar Spencer BBC um hvítþvott vegna málsins. Hann heldur því fram að Bashir hafi þvingað Díönu í viðtalið með fölskum bankayfirlitum og ósönnum kjaftasögum um meint framhjáhald Karls með barnfóstrunni Tiggy Leggy-Bourke.

Í frétt BBC um rannsóknina segir að Lord Dyson, einn af reynslumestu dómurum Bretlands, fari fyrir rannsókninni en hann er kominn á eftirlaun.

„BBC er staðráðið í að komast að sannleikanum í þessu máli og það er þess vegna sem við höfum ákveðið að fram fari óháð rannsókn. Lord Dyson er mikils metinn og virtur maður sem mun leiða ítarlegt rannsóknarferlið,“ segir Tim Davie, útvarpsstjóri BBC.

Bashir hefur enn ekki tjáð sig um ásakanir Spencer. Hann starfar enn hjá BBC en er nú að jafna sig eftir hjartaaðgerð og veikindi vegna Covid-19.

Innlendar Fréttir