Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun í dag tilkynna hvaða reglur taka gildi hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Gildistími núverandi reglugerðar rennur út á miðnætti.
Ríkisstjórnin situr nú á fundi í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu þar sem aðgerðirnar eru meðal umræðuefna. Svandís mun gefa kost á viðtölum að loknum fundi. Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður okkar, er í Tjarnargötu og stefnir Vísir á að miðla viðtölum hennar við ráðherra í beinni útsendingu til lesenda.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra er á fundinum og mun samkvæmt upplýsingum fréttastofu veita viðbrögð við nýföllnum dómi Yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.
Jafnframt mun fréttastofa óska viðbragða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á málunum tveimur.
Bein útsending verður í spilaranum að neðan þegar fundi ríkisstjórnar lýkur. Þar má líka finna textalýsingu fyrir þá sem ekki eiga þess kost að hlusta.