5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Biden sagður ætla að til­nefna Becerra sem heil­brigðis­ráð­herra

Skyldulesning

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, hyggst tilnefna Xavier Becerra, dómsmálaráðherra Kaliforníu, til að gegna embætti heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn sinni.

New York Times segir frá þessu, en Biden eða starfslið hans hafa enn ekki staðfest upplýsingarnar. NBC segir frá því að Biden hafi hringt í Becerra á föstudaginn.

Ljóst er að nýjum heilbrigðisráðherra bíður ærið verkefni en verkefni sem tengjast viðbrögðum Bandaríkjastjórnar við heimsfaraldri kórónuveirunnar munu að stórum hluta lenda á hans borði.

Hinn 62 ára Becerra hefur áður átt sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en þar sat hann árunum 1993 til 2017. Hann var jafnframt í forsvari fyrir bandalagi nokkurra ríkja sem börðust gegn tilraunum Donalds Trump og stjórnar hans að leysa upp sjúkratryggingakerfið sem kennt er við Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hið svokallaða Obamacare.

Þá segir Politico frá því að Biden hafi ákveðið að tilnefna Rochelle Walensky sem nýjan forstjóra Lýðheilsustofnunar Bandaríkjanna, CDC. Hún starfar sem prófessor við Harvard-háskólann og stýrir smitsjúkdómadeild Massachusetts General Hospital.

Innlendar Fréttir