Bíll fór í höfnina í Vestmannaeyjum við Nausthamarsbryggju á níunda tímanum í kvöld og var fjölmennt lið lögreglu, sjúkraflutningamanna og slökkviliðs sent á vettvang. Mbl.is greindi fyrst frá.
Ökumaðurinn var einn í bílnum og náðu kafarar honum út. Var hann meðvitundarlaus og hófust endurlífgunartilraunir á staðnum.
Lögreglan í Vestmannaeyjum birti síðan færslu á Facebook-síðu sinni þar sem greint var frá því að þær tilraunir hefðu ekki borið árangur og að ökumaðurinn hafi verið úrskurðaður látinn. Rannsókn hefur verið sett í gang varðandi tildrög slyssins.