Birnir í vetrardvala geta bjargað fólki með blóðtappa – DV

0
165

Stærsta rándýrið í Evrópu er brúnbjörn. Mörg hundruð kíló á þyngd en samt snar í snúningum. Vinalegur að sjá en getur verið stórhættulegur. Á veturna leggjast birnirnir í híði og sofa veturinn af sér. Vísindamenn hafa lengi velt fyrir sér af hverju birnir fá ekki blóðtappa þegar þeir liggja í vetrardvala. Nú telur hópur vísindamanna sig hafa fundið svarið við þessu eftir 13 ára rannsóknarvinnu.

Niðurstaðan hefur vakið mikla athygli meðal vísindamanna eftir að rannsóknin var birt í vísindaritinu Science. Niðurstaðan veitir von um að hægt verði að takast á við blóðtappa hjá fólki með nýrri aðferð.

Niðurstaðan byggir á „Skandinavíska bjarnaverkefninu“ sem hefur verið í gangi síðan 1984. Í því hafa 80 villtir brúnbirnir í norðurhluta Dalarna í Svíþjóð verið rannsakaðir. Verkefnið miðar að því að afla upplýsinga um lífeðlisfræði bjarna til að hægt verði að nota þær upplýsingar til að koma í veg fyrir sjúkdóma á borð við sykursýki, blóðtappa og hjartasjúkdóma.

Birnirnir eru allir með hálskraga með gpstæki og útvarpsmerkjasendi. Upplýsingar frá þessum tækjum eru notaðar til að fanga þá á um hálfs árs fresti.

Vísindamenn hafa sérstaklega mikinn áhuga á að öðlast skilning á hvernig birnir geta sofið í sex mánuði án þess að fá vott né þurrt og með hjartslátt upp á aðeins 10 til 20 slög á mínútu, án þess að fá blóðtappa eða legusár.

Nú telja vísindamenn sig hafa fundið svarið við blóðtappaspurningunni að sögn TV2. Þeir hafa komist að því að blóðflögurnar, sem valda því að blóð storknar, breytast hjá björnunum þegar þeir leggjast í híði á haustin.

Þessi breyting tengist prótíni sem heitir „heat shock protein 47 (HSP47). Það er nánast ekki að finna í björnunum þegar þeir leggjast í híði. Þeir framleiða 50 sinnum minna af því á veturna en á sumrin.

Þetta prótín er lykillinn að náttúrulegu ferli sem verndar líkamann gegn blóðtöppum þegar hann getur ekki hreyft sig. Þessi uppgötvun þykir mjög spennandi því hún getur haft mikil áhrif fyrir fólk sem á á hættu að fá blóðtappa vegna hreyfingarleysis.

Vísindamennirnir rannsökuðu einnig tengslin á milli bjarna og manna með því að rannsaka hvað gerist með blóðflögur fólks sem lamast vegna mænuskaða. Niðurstaðan, sem kom vísindamönnum mjög á óvart, er að fólk býr yfir þessum sama hæfileika og birnir þegar þeir leggjast í híði. Þetta þýðir að hjá sjúklingum með mænuskaða verður sama ferli og hjá bjarndýrum, framleiðsla HSP47 dregst saman eftir nokkrar vikur.

En samt sem áður eru sjúklingar, sem geta ekki hreyft sig í langan tíma, í meiri hættu á að fá blóðtappa, aðallega vegna takmarkaðs blóðstreymis, sérstaklega á fyrstu vikum hreyfingarleysisins.

Næsta verkefni vísindamannanna er að komast að hvort hægt sé að yfirfæra þessa líkamsvirkni bjarndýra til fólks. Það verður þá hægt að gera með þróun nýrra lyfja sem vinna gegn blóðtöppum.