8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Bitinn af hvíthákarli – „Þetta líkist hakki“

Skyldulesning

Sunnudaginn 6. desember var Cole Herrington, 20 ára, á brimbretti á svæði sem nefnist The Cove en það er sunnan við Seaside í Oregon í Bandaríkjunum. Svæðið er mjög vinsælt meðal brimbrettafólks.  Skyndilega réðst hvíthákarl á hann þegar hann lá á brimbrettinu með fæturna hangandi niður.

The Sun skýrir frá þessu. Hákarlinn beit fyrst í brimbrettið og því næst í vinstri fót Herrington. Hákarlinn dró hann síðan niður í sjóinn en sleppti honum síðan.

Í samtali við NBC News sagði Herrington að hann myndi ekki mikið eftir árásinni. „Ég náði aftur taki á brettinu og vissi að ég hafði verið bitinn. En ég man ekki alveg hvað gerðist.“

Hlúð að Herrington við ströndina. Mynd:GoFundMe

Móðir hans, Amy Powll, ræddi við fjölmiðla og sagðist vera mjög brugðið. „Cole sagðist ekki einu sinni hafa séð hákarlinn. Skyndilega var hann kominn á kaf. Hann man ekki mikið eftir þessu,“ sagði hún. Hún sagði að áverkarnir á fætinum væru frá litlu tá að hælnum og einnig sé hann með áverka á lærinu. „Það lítur út fyrir að hákarlinn hafi sleppt og síðan nuddast utan í lærið. Þetta líkist hakki,“ sagði hún.

Herrington fann ekki fyrir neinum sársauka þegar hákarlinn réðst á hann. Hann þakkar öðru brimbrettafólki fyrir björgunina en það áttaði sig fljótt á að ráðist hafði verið á hann og hringdi í neyðarlínuna. Fólkið kom honum síðan í land og veitti honum fyrstu hjálp þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang og fluttu hann á sjúkrahús. Þar fór hann fljótlega í aðgerð.

Innlendar Fréttir