7 C
Grindavik
2. mars, 2021

Björguðu stigi gegn tíu leikmönnum Sheffield

Skyldulesning

Danny Welbeck (númer 18) skorar hér jöfnunarmarkið í Brighton í …

Danny Welbeck (númer 18) skorar hér jöfnunarmarkið í Brighton í dag.

AFP

Brighton og Sheffield United skildu jöfn, 1:1, í fallbaráttuslag í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Gestirnir frá Sheffield léku manni færri allan síðari hálfleikinn en voru engu að síður nálægt því að hirða stigin þrjú.

John Lundstram fékk að líta beint rautt spjald í liði Sheffield United á 40. mínútu fyrir háskalega tæklingu en gestirnir tóku engu að síður forystuna, manni færri, á 63. mínútu þegar Jayden Bogle skoraði með hnitmiðuðu skoti innan teigs eftir sendingu frá David McGoldrick.

Gestirnir virtust ætla að hanga á forystunni og vinna sinn fyrsta sigur í deildinni á tímabilinu fram á 87. mínútu þegar varamaðurinn Danny Welbeck jafnaði metin og jafnframt tryggði heimamönnum stig með marki af stuttu færi eftir darraðardans í vítateignum í kjölfar aukaspyrnu.

Bæði lið fengu svo færi til að kreista fram sigurmark á spennandi lokamínútum og voru það Brighton-menn sem komust næst er Alireza Jahanbakshs skallaði í þverslá. Brighton er í 16. sæti með 12 stig en Sheffield United er enn á botninum með tvö stig eftir 14 leiki.

Innlendar Fréttir