Björgun Wilsons hefst í dag

0
75

Varnargirðing var sett út í varúðarskyni vegna mögulegs olíuleka úr Wilson Skaw. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Björgunaráætlun vegna skipsins Wilson Skaw var samþykkt í gær og hefst vinna við björgunina í dag.

Norska stór­flutn­inga­skipið, Wil­son Skaw, strandaði við Enn­is­höfða á Húna­flóa 18. apríl. 

„Endanleg björgunaráætlun björgunarfélagsins sem vinnur á vegum eigenda skipsins, var samþykkt af Landhelgisgæslu, Umhverfisstofnun og Samgöngustofu í gær. Þá er hægt að hefja þessa vinnu sem hefur staðið til í vikunni,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar í samtali við mbl.is.

„Eftir hádegi mun varðskipið Freyja koma til með að leggjast utan á Wilson. Við gerum ráð fyrir því að seinna í dag hefjist vinna við að forfæra farminn til þess að gera því kleift að hægt verði að draga skipið til Akureyrar,“ segir Ásgeir.

Forfæringum ljúki um miðja næstu viku Ásgeir segir að forfæringarnar muni taka nokkra daga og reiknar með því að þeim verði ekki lokið fyrr en um miðja næstu viku.

Um 2000 tonn af salti eru um borð í skipinu.

„Þegar forfæringunum verður lokið gerum við ráð fyrir að skipið verði dregið til Akureyrar en það liggur ekki fyrir hvort það verði dregið af varðskipinu Freyju eða af öðru dráttarskipi,“ segir Ásgeir.