Bjórþyrstir Danir svolgra páskabjór í sig – Nánast uppseldur – DV

0
146

Danir eru almennt áhugasamir um bjór og drekka mikinn bjór. Páskarnir eru ein af þeim hátíðum þar sem Danir koma saman og snæða og drekka bjór, aðallega páskabjór, og snafs. Vinsælasti páskabjórinn er líklegast „Kylle Kylle“ frá Tuborg. Hann heitir eiginlega Tuborg Påskebryg en er yfirleitt kallaður „Kylle Kylle“.

Góð sala hefur verið á „Kylle Kylle“ síðustu vikur og á föstudaginn tilkynnti Tuborg að bjórinn sé nánast uppseldur.

Fyrirtækið á aðeins fimm prósent af heildarframleiðslu ársins eftir á lager og ekki næst að brugga meira fyrir páska. Caroline Leopold, hjá Tuborg, sagði í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að það vilji gjarnan að bjórinn dugi til páska en það stefni í að þetta árið verði það tæpt. Salan hafi komið mjög á óvart og bjórinn sé að verða búinn.

2,6 milljónir lítra voru bruggaðir af bjórnum vinsæla en ljóst er að það dugir ekki til.