4 C
Grindavik
5. mars, 2021

Blaðamaður fórnar sér: Eins og Trump hefði verið slátrað með háþrýstidælu

Skyldulesning

Í liðnum Blaðamaður fórnar sér er ýmislegt látið flakka. Nú var það hugmyndin að komast upp úr grunnlit og fá sólkysst útlit til að gera rótina þolanlegri á næsta fjarfundi.

Sjá einnig: Blaðamaður fórnar sér í Detox  , Drakk Sellerísafa í viku og Köld Sturta 

Með auknu „náttúrulegu útliti“ sökum þess að hárgreiðslu- og snyrtistofur hafa verið lokaðar reglulega í ár eru menn og konur til í að ganga lengra til að fegra útlit sitt með öðrum leiðum. Allavega ég.


Hver vill ekki vera sólkysstur í miðjum faraldri, frosti og súld?

Ég hef löngum verið hrifin af brúnkukremi, með misjöfnum árangri þó – vinkonum mínum til ómældrar gleði. Ég ákvað því að fórna mér og finna leiðina að sólkysstum kroppi í desember. Það hefur jú oft verið sagt að það sé sálinni hollt að taka sig til þó ekki sé verið að fara neitt sérstakt.

Þannig höfum við fjölskyldan haldið hátíðarkvöldverði og jólaboð og klætt okkur upp á þó enginn sé að koma eða fara – bara til þess að gera okkur dagamun saman. Og þennan dag ætlaði ég að vera brún. Jólaföndrið í ár var við það að hefjast!

Hvaða krem?


Þar sem engin u-tanlandsferð var í ár og verður ekki á næstunni var þráin eftir andliti sem rennur ekki saman við gráu snjókögglana sem hrynja undan bílnum á svörtum vetrarmorgnum verkefni sem ég taldi vert að vaða í. Eftir nokkra yfirlegu kom í ljós að hægt er að fá mjög ódýrt brúnkukrem í Bónus og allt upp í tug þúsunda króna krem. Þar fyrir utan stendur svo valið á milli krems, klúta, úða eða froðu.

Svo virðist vera sem alls ekki megi nota sama kremið á andlit og líkama. Oft eru líkamskrem feitari og geta þá stíflað húðina í andlitinu og valdið bólum og útbrotum. Ekkert jólalegt við það skraut. Ég prófaði ýmis krem og vökva en fannst Marc Inbane brúnkudroparnir út í dagkrem virka best á andlitið en þá getur fólk sjálft stillt styrk brúnkunnar. Burstinn frá sama fyrirtæki virkar mjög vel til þess að fá hendurnar fallega brúnar.

Hendurnar vandamál


Guð einn veit að ég hef gengið í gegnum alls konar brúnkuslys. Á tímabili reyndi ég fyrir mér með brúnkuklúta sem skiluðu mjög misgóðum árangri. Ég þóttist nú vera eldri en tvævetur og eftir nokkra yfirlegu og samræður við mis brúnar konur virtist þetta almennt ekki vera svo flókið nema að hendurnar voru yfirleitt mesta málið. Þar er komin ný tækni en internetið vill meina að það gefi góða raun að nota sérstakan bursta – í ætt við kinnalitarbursta – til að dreifa úr brúnkunni á höndunum og forðast þannig appelsínugula lófa.

Ég var bjartsýn, með fullan poka af kremum sem ég hafði keypt um allan bæ (og beðið í röð á pósthúsi eftir að sækja), kveikti á jólarásinni og lét sloppinn falla.

Þurrar hendur eru ekki góður strigi fyrir brúnkukrem

Undirbúningurinn


Eins og með alla málningarvinnu skiptir undirbúningurinn máli. Teipa, hylja gólfið, sparsla, pússa og allt það. Hér hefur mér oft brugðist bogalistin allverulega en ekki í þetta sinn enda langt gengin í fertugt og kominn tími til að sýna lágmarks fyrirhyggju.

Brúnkuskrefin 6 

SKREF 1


Byrja skal á því að skrúbba húðina í sturtu með skrúbb eða þar til gerðum bursta/hanska til að losna við þurrar og dauðar húðflögur. Þetta á sérstaklega við um hendur sem eru mjög þurrar eftir sprittnotkun. Brúnkukremið mun annars sitja sem fastast í þurrkublettum, hnúum o.fl. Ekki fallegt.

SKREF 2


Gott er að bera létt rakakrem á húðina til að tryggja að þurrari svæði dragi ekki frekar í sig brúnkukremið og „landakorts“ lúkkið sé ekki niðurstaða gjörningsins.

SKREF 3


Í upphafi skal endinn skoða. Hér þarf að velta fyrir sér tilgangi gjörningsins. Ég ætlaði mér að verða sólkysst um allan kroppinn og ákvað að nota öll helstu stoðtæki sem voru:


• Brúnkudropar – til að setja út í venjulegt andlitskrem


• Brúnkufroða eða -úði


• Hanski og/eða bursti

SKREF 4


Undirbúa stað átaka. Ef úði er notaður skal gera það í lokuðu rými svo sem sturtu, annars er fínt að standa á dökku handklæði á gólfinu. Ég hef þurft að skúra veggina! Hér hefur reynst best að standa í sturtu.

SKREF 5


Veljið krem og búnað. Ég prófaði úða sem kemur vel út – jafnt á kroppinn en fer líka jafnt á ALLT í kringum þig. Ég hafði vit á að spreyja mig inni í sturtunni sem í kjölfarið leit út eins og Donald Trump hefði verið slátrað með háþrýstidælu. Froða og hanski virka vel og smita ekki allt herbergið en þá situr eftir hvít hönd. Þar kemur burstinn sterkur inn.

SKREF 6


• Berðu kremið/froðuna á þig með sérstökum hanska. Gættu þess að strjúka jafnt yfir húðina og ekki setja á hendur eða andlit.


• Taktu af þér hanskann og settu 2-3 dropa af brúnkudropunum út í dagkremið og berðu í andlit. Þurrkaðu yfir augnabrúnir með hreinum rökum klút.


• Þvoðu hendurnar og þurrkaðu vel. • Gættu þess að hendurnar séu ekki of þurrar (þurrkublettir).


• Úðaðu brúnkuspreyi eða notaðu froðu á handarbakið og dreifðu úr með þar til gerðum bursta.


• Farðu í léttan víðan klæðnað – helst svartan og leyfðu herleg-heitunum að þorna og ekki sturta þig í að lágmarki 2 tíma.


• Virtu fyrir þér fegurðina – farðu svo aftur í heimavinnugallann og upp í sófa.

ALLS EKKI


Setja á þig brúnkukrem 24 tímum áður en þú litar á þér augnabrúnirnar. Ó, guð! Kremið virkjar einhvern fjanda sem gerir það að verkum að augnabrúnaliturinn festist miklu meira í húðinni og þú færð „stimpil“ í stað augnabrúna.

Sérstakur brúnkukremsbursti kom sér vel. Mynd: Marc Ibane

Innlendar Fréttir