10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Blaðamenn í lögregluyfirheyrslu vegna síma Samherjaskipstjóra – Páll var í lífshættu og grunur um byrlun

Skyldulesning

Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður Stundarinnar, og tveir blaðamenn Kjarnans, þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri miðilsins, og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður, hafa allir réttarstöðu sakbornings hjá lögreglunni á Akureyri, vegna  afritunar á gögnum úr snjallsíma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja.

Stundin og Kjarninn greina frá þessu í dag. Blaðamennirnir eru grunaður um brot á lögum um friðhelgi einkalífs. Lögin kveða á um að brotið sé gegn friðhelgi einkalífsins „með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi“, eða með því að „verða sér úti um aðgang að slíkum gögnum“.

Málið kom upp í maí árið 2021 en þá greindu Stundin og Kjarninn frá uppljóstrunum um áform svokallaðrar skæruliðadeildar Samherja um ýmiskonar áróður gegn aðilum sem taldir voru andsnúnir Samherja, þar á meðal blaðamönnum. Var hér um að ræða samskipti á milli Páls Steingrímssonar, Þorbjörns Þórðarsonar, sem þá var almannagtengill fyrir fyrirtækið, og Örnu Bryndísar Baldvins McClure lögmanns.

Lögreglumenn frá Akureyri eru væntanlegir til Reykjavíkur til að yfirheyra blaðamennina.

Páll var í bráðri lífshættu

Páll Steingrímsson lá í öndunarvél á Landspítalanum á meðan gögn úr síma hans voru afrituð, samkvæmt heimildum DV. Manneskja, sem grunuð er um að hafa byrlað Páli ólyfjan og stolið snjallsíma hans, hefur verið yfirheyrð af akureysku lögreglunni.

Páll var fluttur meðvitundarlaus með flugvél fá Akureyri og var vart hugað líf um tíma. Talið er að hann hafi orðið fyrir byrlun. Hann náði sér síðan eftir eitrunina.

Tekið skal fram að blaðamennirnir eru ekki grunaðir um að eiga hinn minnsta þátt í meintri byrlun né þjófnaði á símanum heldur að hafa tekið við símanum  af þeim aðila sem stal honum og afritað gögn af honum. Sú staðreynd að þeir eigi mögulega yfir höfði sér ákærur vegna þess athæfis vekur spurningar um mörk starfsfrelsis blaðamanna en mörg dæmi eru um að blaðamenn hafi nýtt sér upplýsingar sem aflað hefur verið með ólöglegum hætti án þess að fá á sig lögsóknir. Raunar staðhæfir Kjarninn í frétt sinni af málinu að engin þekkt dæmi sé um það að lög­regla ákæri blaða­menn fyrir að skrifa fréttir upp úr gögnum. Á það mun reyna við framgang málsins hvar lagamörk blaðamanna við öflun upplýsinga sem fengnar eru með ólöglegum hætti liggja.

Uppfært kl. 21:

Samkvæmt grein Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns Blaðamannfélags Íslands, á Vísir.is, er Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks á RÚV, einnig með stöðu sakbornings og hefur verið boðuð til yfirheyrslu.

Sigríður undrast framganga lögreglunnar í málinu, segist hún telja að reynt verði að fá blaðamenn til að gefa upp heimildarmenn sína í málinu en frumskylda blaðamanna sé að vernda heimildarmenn. Sigríður ritar:

„Það er óskiljanlegt og í raun mjög alvarlegt að lögreglan á Norðurlandi hafi ákveðið að kalla þrjá blaðamenn til yfirheyrslu vegna þess eins að þeir skrifuðu fréttir upp úr gögnum sem þeir höfðu undir höndum. Það er grundvöllur starfs blaðamanna að vinna úr gögnum sem þeim berast. Lögreglan kallar hér blaðamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu grunaðs um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífsins. Hvenær sem gögn eru þess eðlis að þau gætu talist sem brot gegn friðhelgi einkalífsins þarf blaðamaður að meta þau með tilliti til almannahagsmuna og meta hvort vegi þyngra, friðhelgi einkalífsins eða almannahagsmunir. Þegar almannahagsmunir vega þyngra er það aldrei spurning að slík gögn eigi að nota til grundvallar fréttum, sama hvernig gögnin eru fengin. Alþjóðastofnanir hafa lagt á það grundvallaráherslu að gætt sé fyllstu varkárni þegar blaðamenn eru rannsakaðir. Blaðamenn hafa, samkvæmt dómum Mannréttindadómstólsins, fullan rétt til og ber í raun skylda til þess að vernda heimildarmenn sína, hvort sem upplýsingar sem um ræðir eru fengnar með lögmætum eða ólögmætum hætti.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir