4 C
Grindavik
1. mars, 2021

Blóðmerar, minkar og riða.

Skyldulesning

Kjarninn vefrit, fjallar um minkamálið sem skekið hefur Dani síðustu vikur í grein sem birtist 29. nóvember 2020.

Eins og mörgum er kunnugt ruku dönsk stjórnvöld upp til handa og fóta og fyrirskipuðu niðurskurð allra minka vegna rökstudds gruns um að fundist hefði stökkbreytt afbrigði af Sars-CoV-2 vírusnum sem sett hefur heimsbyggðina á annan endann að undanförnu.

Skemmst er fá því að segja að dönsk stjórnvöld fóru full geyst í sakirnar; lög voru sett eftirá og annað var eftir því. Mette Frederiksen forsætisráðherra fór síðan í heimsókn til minkabændanna og var brugðið, táraðist og beygði af.

Allt er málið hið nöturlegasta, fólk er svipt ævistarfinu, milljónir dýra eru drepin, urðunarstaðir eru skammt frá vatni sem fólk hefur notað sér til útivistar, þ.e.a.s. bæði vatnið og nágrenni þess. Þá er ótalið að minkahræin voru grafin svo grunni að við gasmyndun sem verður í þeim, þrýstast þau upp á yfirborðið aftur. Um er að ræða hvorki meira né minna en 17 milljónir minka, enda Danir stórtækir í framleiðslu minkaskinna.

Málið er allt hið ömurlegasta eins og fyrr sagði og afar ólíkt því sem gerðist varðandi niðurskurð sauðkinda og geita norður í Skagafirði á Íslandi. Þar voru það vísindamenn sem tóku ákvörðunina, byggðu hana á vísindalegum rökum og lögum. Fyrir eru í landinu lög sem tryggja bændum bætur á fjárhagslegu tjóni og að auki er búið að gera samning um sálfræðiaðstoð fyrir bændafólkið til að auðvelda því að komast í gegnum skaflinn.

Við eigum okkar Mette, því einn íslenskur alþingismaður lýsti því opinberlega yfir að honum fyndist að það sama ætti að gera hér á landi. Hann hafði veitt því eftirtekt að í landinu bláa væru nokkur minkabú og það fannst honum ekki gott; hefur líkast til fundist sem, að ef Íslendingar vildu endilega skreyta sig með loðkrögum, gætu þeir látið sér nægja að notast við eitthvað sem búið er til úr olíuefnum.

Stjórnmálamaður þessi er svo uppljómaður af áhuga sínum á að vera góður við dýrin, að nýlega tjáði hann sig um það að hætta ætti eldi hryssna í því skyni að notaðar yrðu til blóðtöku. Það eru sem sé að hans mati eingöngu menn sem leggjast mega á bekkinn til að gefa blóð.

Langoftast er þar um að ræða hryssur sem ekki hefur tekist að temja vegna einhverra skap- eða líkamsgalla. Svoleiðis skepnur vill viðkomandi þingmaður væntanlega láta skjóta strax, nema að hugmyndin sé, að þeim verði beitt á guð og gaddinn fram í elli, eða þar til að þær verði settar á til þess gerð hrossaelliheimili. Ekki gott að segja og sumt er erfitt að skilja.

Fyrr í þessum pistli var nefnt að sauðfjárbændum norður í landi stæði til boða sálfræðiaðstoð á vegum hins opinbera vegna hremminganna sem þeir hafa orðið fyrir. Um er að ræða nýjung sem ekki hefur verið verið í boði áður fyrir fólk sem orðið hefur fyrir svipuðum áföllum. Lítill er mikils vísir og í framtíðinni má reikna með því að svona nokkuð verði alsiða: að þegar fólk verður fyrir miklum áföllum muni hið opinbera stíga inní og auk þess að bæta peningalegt tjón, verði bætt andlegt tjón: riðubætur og andlegar bætur hverskonar.

Að þessu sögðu er gott til þess að vita að á Alþingi þjóðarinnar skuli sitja þingmenn og ráðherrar með göfugar hugsjónir, hugljómanir og einlægan áhuga á að láta gott af sér leiða.

Verði niðurstaðan í blóðmeramálinu ógurlega ekki sú sem umræddur þingmaður óskar, má þó í öllu falli gera ráð fyrir að þingmaðurinn geti átt von á hringingu frá ráðherra landbúnaðarmála, sem muni spyrja hann hvernig hann hafi það og muni síðan í framhaldinu bjóða honum aðstoð til að bæta hið andlega áfall.

Undirritaður setur upp rússnesku loðhúfuna sem hann keypti fyrir austan á dögum sovétsins og kveður.


Innlendar Fréttir