Bloggarinn hvarf sporlaust af Internetinu – Nú telur hún sig hafa leyst þessa dularfullu ráðgátu – DV

0
1307

Í tólf ár olli bloggarinn kínverskum yfirvöldum höfuðverk. Hann var þekktur undir nafninu „Program Think“. Hann gagnrýndi kínversk stjórnvöld í færslum sínum á netinu en í maí 2021 þagnaði hann skyndilega. Það vakti að vonum mikla athygli og óttuðust margir að nú hefðu kínversk yfirvöld haft uppi á honum og handtekið.

Nú telur kona ein, sem heitir Bei, að hún hafi komist að því hvað varð um bloggarann vinsæla.

Í samtali við CNN sagði konan að eiginmaður hennar, Ruan Xiahouan, hafi verið handtekinn 10. maí 2021. Daginn áður kom síðasta lífsmerkið frá „Program Think“ á netinu.

„Lögreglan sagði mér að mál hans væri mjög alvarlegt en ég skildi það ekki. Hann er bara tækninörd sem elskar að sökkva sér ofan í tækni. Hvernig á hann að hafa eytt svona mikilli orku í að skrifa greinar um pólitík,“ sagði konan í samtali við CNN.

Hún sá manninn sinn ekki aftur fyrr en þann 10. febrúar á þessu ári en þá var hann færður fyrir dómara, ákærður fyrir að hafa afhjúpað ríkisleyndarmál.

Hann var dæmdur í sjö ára fangelsi.

„Hann sneri sér við og horfði örvæntingarfullur á mig til að reyna að fá hjálp. Ég sá á honum að dómurinn var miklu þyngri en hann átti von á,“ sagði Bei.

Hún skildi ekki þann vanda sem maðurinn hennar hafði komið sér í. Í dómsniðurstöðunni segir að hann hafi skrifað mörg hundruð greinar í fartölvunni sinni sem var ætlað að „dreifa orðrómum, ráðast á og gera stjórnmálakerfi landsins að athlægi“.

Í dómnum er „Program Think“ ekki nefndur einu orði né bloggið.

Bei fór því á stúfana til að reyna að komast að sannleikanum um meint afbrot eiginmannsins til að reyna að komast að hverju kínversk yfirvöld væru að leyna. Hún lærði að nota VPN til að komast fram hjá hinni ströngu ritskoðun sem á sér stað á Internetinu í Kína.

Hún leitaði síðan að horfnum kínverskum bloggurum og ein mynd birtist hvað eftir annað. Höggmyndin af sitjandi, hugsandi manni: „Hugsuðurinn.“

Þá áttaði hún sig á að það var maðurinn hennar sem var þekktur sem „Program Think“.

Ritstíll hans var auðþekktur og hún komst að því að maðurinn hennar hafði verið ákærður fyrir að skrifa 700 gagnrýnar greinar um kommúnistaflokkinn. Nákvæmlega sami fjöldi greina og „Program Think“ hafði skrifað á bloggið sitt. Það getur ekki verið tilviljun að mati Bei.

Kínversk yfirvöld hafa ekki staðfest að Ruan Xiaohuan og „Program Think“ séu sami aðilinn.