9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Boris ekki farinn enn. „Ef Pútín væri kona…“

Skyldulesning

Upptaka: Ein af tíu Ilyushin Il-96-300 breiðþotum rússneska forsetaembættisins og ríkisstjórnarinnar sækir fimmtán erindreka rússneska sendiráðsins í Kaupmannahöfn og fjölskyldur þeirra sem Danir vísuðu úr landi í vor. Il-96-300 breiðþotan er kúnin fjórum PS-90 hreyflum frá rússnesku Aviadvigatel samstæðunni í Perm austur við Úralfjöll. PS-90 hreyflarnir eru einnig notaðir í Ilyushin Il-76, Beriev A-50 og Tupolev Tu-204. Fullhlaðin með til dæmis 260 farþega er drægni breiðþotunnar 11,5 þúsund kílómetrar og er beint flug frá Moskvu –sem er næst stærsta borg Evrópu á eftir Konstantínópel– til borga á vesturströnd Bandaríkjanna því mögulegt 

****

BORIS EKKI FARINN ENN

Ég skrifaði um daginn að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands væri ekki á leiðinni út. Hann veit vel sem er, að innan leiðindapúkaraða Breska íhaldsflokksins er varla neinn sem unnið getur næstu kosningar með því öryggi sem hann einn getur skaffað. Þess vegna bíður hann þess átekta að útilokunarkast blautþingmúgs flokksins og sem hann kom til valda, komist á ný til meðvitundar um þorskþurra framtíð þeirra sjálfra á næstu mánuðum. Eins og Wilson sagði: vika í pólitík er heil eilífð. En þá hvað með tvo til þrjá mánuði? Já það er nefnilega það

Þessi ófélagsmiðlaknúnu ofsaköst Sovétfélaga nútímans á vesturlöndum eiga það til að grípa um sig eins og gerist meðal komandi frostkristalla, sem vita ekki hvað gengur á fyrr en þeir sjálfir verða til á síðasta sekúndubroti, sem leið. En þá er allt um seinan og eina leiðin til baka er í fljótandi formi. Þarna er tækifæri fyrir mig-líka hugsar sú mannleysutegund sem gerði og gerir sig gildandi innan skemmdarverkamannahreyfinga MeToo og „woke“-marxistanna

EF PÚTÍN VÆRI KONA

Annars hef ég skipt dálitið um skoðun á Boris eftir að hann á síðasta G7-fundi sagði að það sem er að gerast austan við (innvortis) upplausn vesturlanda; „sé eitt skýrasta merkið um „eitraða karlmennsku“ sem til er í dag“, því ef rússneski þjóðarleiðtoginn væri kona þá myndi Rússland ekki standa í hernaði á Úkraínu núna. Þarna átti hann að sjálfsögðu við forseta Rússlands, Vladímír Pútín, og “hernaðaraðgerðir” Rússlands í Úkraínu. Ja hérna

En að segja einmitt þetta, eru hins vegar einna skýrustu merkin sem ég hef séð um vitsmunalegan skort hjá Boris Johnson, því með því að segja akkúrat þetta um þjóðarleiðtoga Rússlands, sem nú fetar í fótspor Katrínar miklu, þá sýnir Boris hvorki meira né minna en afglapahátt af verstu sort. Hvernig í ósköpunum gat Boris ekki vitað eftirfarandi, það skil ég bara alls ekki. Já, hvernig í ósköpunum gat slíkt gerst. Ráðgjafar hans hljóta annaðhvort að vera nútímabjánar eða Metoo-grænir kynja-kommar á bak við bæði eyru, eða þá það sem verra er; að sjálfur Boris hafi ekki verið í lagi þá stundina á einmitt þeim stað. Kannski er það það, eða ekki. Pólitískar kreppur á Bretlandseyjum virðast nefnilega sækja í sig veðrið eins og á meginlandi Evrópu, þar sem nánast hvert sem litið er flest riðar til makró-pólitísks falls

FALLANDI OG FALLANDI ER ESB

Til dæmis er evran fallin um tæp 40 prósent síðan í mars 2008 og mun fall hennar líklega fara hraðversnandi á næstunni því til að komst hjá hruni þarf þýska framleiðsluapparatið á 40 prósent gengisfellingu að halda í viðbót við þau tæpu 40 prósent sem hún er fallin gagnvart Bandaríkjadal síðan í byrjun árs 2008. Það verður fróðlegt að fylgjast með Þýskalandi og þýskum stjórnmálum þegar evran er komin niður í 0,65 dali. Byltíngin maður. En í gær var einmitt dagurinn þar sem evran hafði fallið svo mikið að hún kostaði aðeins einn Bandaríkjadal, slíkt hafði ekki sést í 20 ár

STAÐREYNDIR ERU ÞRJÓSKASTA FYRIRBÆRI HEIMSINS

If Putin Was a Woman - Walter Russell Mead

„One hopes this was the reflexive and insincere pandering of a career politician, because if Mr. Johnson and his G-7 colleagues actually believe this nonsense, the West is in even greater trouble than it appears.“ – Walter Russel Mead

****

En hér eru staðreyndirnar sem Boris kunni greinilega ekki skil á: Ef Pútín væri kona (eftir Walter Russell Mead í WSJ þann 4. júlí) þá væri hann búinn að 1) stofna borgirnar Odessa, Dnípro, Kherson, Mykolajív og Sevastópol og 2) nútímavæða Rússland eftir fall Sovétríkjanna (sem Pútín þegar er búinn að gera). 3) Vinna Krímskagann úr höndum Tyrkjaveldis (búinn að því líka). 4) Berja miskunnarlaust niður öll valda-olígarka-öfl innan landamæra Rússlands (búinn að því líka) og sem selja myndu landið útlendingum fyrir fé. Og 5) með aðstoð Bretlands stofna Nýja-Rússland þar sem miklu síðar og um tíma varð til mjög svo tímabundin Úkraína. 6) Brjóta upp samveldi Póllands og Litháen og setja stærsta hluta þess á ný undir Rússland. 7) Leggja Alaska undir sig ásamt hluta af því sem síðar varð Kalifornía: Og 8) Berlín hafði verið hertekin af Rússum skömmu fyrir valdatöku Katrínar miklu þannig að það þurfti hún ekki að endurtaka, heldur bauð hún Þjóðverjum að búsetja sig í Rússlandi og rækta jörðina, sem þeir og gerðu milljónum saman í stað þess að fara til Vesturheims

Allt þetta og meira til, segir Walter Russell Mead í grein sinni, má sjá í sjónvarpsseríunni Katrín mikla sem sýnd er á rússnesku með enskum undirtexta á streymisveitu Amazon. Þannig að skyldu enn-uppistandandi vesturlandabúar vilja vita að Pútín sé ekki haldinn „eitraðri karlmennsku“ heldur „eitraðri kvenmennsku“ (sé hún til) þá er að kasta sér í sófann , segir Russell Mead. Og slökkva á gagnslausum á fjölmiðlum vesturlanda segi ég, en þá opna ég helst aldrei fyrir, nema þá á textaformi þannig að ég slepp alveg við að slökkva; er nefnilega búinn að því

ERUM MEIRA AÐ SEGJA EKKI BYRJAÐIR ENN

Já segi ég bara. En í síðustu viku leiðrétti Pútín fyrir leiðtogum þingsins það sem Boris sagði á gésjö, með því að segja sjálfur; „Já en Rússland er varla byrjað á neinu enn“. Þetta kom fram á fundi forsetans með leiðtogum neðri deildar þingsins og flokksleiðtogum

„Við heyrum í dag að þeir vilja að við [Rússar] séum sigraðir á vígvellinum. Ég veit varla hvað ég á að segja. Látum þá bara reyna það, því við erum varla byrjaðir á neinu fyrir alvöru enn…”

Þess vegna segi ég enn og aftur: Hvað skyldi Vladímír Pútín hugsa með hægri hendinni, nú þegar hann lætur sér nægja að beita þeirri vinstri í Úkraínu? Það væri gaman að vita

NÆRFATALAGERSTAÐA VESTURLANDA

En Vladímír virðist standa vel að vígi með sitt, á meðan svo kallaðir vestrænir menn eru uppteknir við að segja að eyðileggjandi uppnám og afnám alls sé eina leiðin til framfara, helst með því að þurrka út öll hefðbundin gildi og hefðir og helst tungumálið líka, stilla ártalið á núll, telja ísbirni upp á nýtt og úthluta kynjakvótum undir sovéskum járnhimni jafnréttinga, og mæla síðan stærð jökla með vinstra auga á meðan grænn sovétleppur er settur fyrir það hægra. Allt saman mjög nákvæmt og næstum því í kambódískum MeToo stíl. Á þessa leið skrifar stjórnmálafræðingurinn Valentin Naumescu í rúmenska Spotmedia.

Í leiðinni er hægt að benda lesendum á að nærfatalagerstöðu vestrænna stjórnmálaleiðtoga voru gerð góð skil í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, þann 2. júlí 2020. Sú staða hefur ekki beint batnað í hinu umliðna tíudagastríði blautþingmúgsins gegn réttkjörnum Boris Johnson. Furðulegt að þeir skuli ekki sjá þetta; þ.e. að þeir sitja þarna á þingi vegna Borisar og hafa ríkisstjórnarvöld í Bretlandi vegna Borisar. Hvað er að þessu liði? Það var fólkið í landinu sem kaus Boris, ekki þeir

MEIRI V8-TÓNLIST

****

Upptaka af MZKT-79291 á vefsvæði Max Fisher á YouTube (hækka hljóðið)

Og fyrir þá sem sem hafa, eins og ég, gaman af átta strokka tryllitækjum, þá má hlýða hér á V8-tónlistina úr einni 12×12-drifa útgáfunni af MZKT-79291, sem er eldflaugavagn smíðaður af MZKT í Hvítarússlandi og sem borið getur allt að 60 tonna langdræga eldflaug, sem hægt er að senda milli heimsálfa þið vitið hverra. Þarna er greinilega um eins konar reynsluakstur að ræða. Pláss er fyrir þriggja manna áhöfn. V8-dísilvélin er að ég held frá Tutaev-vélaverksmiðjunni í Yaroslavl í Rússlandi, en sem síðar varð hluti af rússnesku KAMAZ-samstæðunni. Takið eftir hve farartækið er lágreist og því torséð í skóglendi. V8-vélin er fyrir aftan stýrishúsið og kælikerfi hennar er þar fyrir aftan. Sjálfskiptingin er frá MZKT. Til eru enn stærri og lengri útgáfur af undirvagninum en þá með V12-strokka dísilvél og fleiri hásingum. Alrússneska KAMAZ-7850-serían mun síðan taka við af MZKT-útgáfunum, svona til aukaöryggis

Fyrri færsla

NATO í tilvistarkreppu


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir