borkur-aflamestur-thad-sem-af-er-ari

Börkur aflamestur það sem af er ári

Skipverji á Víkingi AK fylgist með þar sem skipverjar á …

Skipverji á Víkingi AK fylgist með þar sem skipverjar á Berki NK eru að draga, til hægri er Guðrún Þorkelsdóttir SU á siglingu. Börkur er aflamesta loðnuskipið það sem af er ári og hefur landað 29.499 lestum. mbl.is/Börkur Kjartansson

Frá áramótum hafa íslensku loðnuskipin landað um 393.861 lestum af loðnu og eru skip Síldarvinnslunnar áberandi aflamest en góður afli hefur verið hjá flestum skipum enda óvenju stór vertíð. Alls hafa fimm aflamestu skipin það sem af er ári landað rúmlega 32% af loðnuaflanum en ört styttist í að vertíðinni lýkur.

Börkur NK-122, sem Síldarvinnslan gerir út, er aflamesta loðnuskipið það sem af er ári og hefur náð 29.499 lestum, að því er fram kemur í gögnum Fiskistofu. Systurskip Barkar er næst aflamesta loðnuskipið og hefur Vilhelm Þorsteinsson EA-11, sem Samherji gerir út, landað 28.493 lestum.

Vilhelm Þorsteinsson EA hefur náð næst mest af loðnu.

Vilhelm Þorsteinsson EA hefur náð næst mest af loðnu. Ljósmynd/Þórhallur Jónsson

Þá er Beitir NK-123, einnig gert út af Síldarvinnslunni, þriðja aflamesta loðnuskipið með 24.153 lesta afla. Heimaey VE-1, skip Ísfélags Vestmannaeyja, er í fjórða sæti með 22.329 lestir og í fimmta er Venus NS-150 með 21.839 lestir en það skip er gert úr af Brim.

Alls hafa 22 íslensk skip landað loðnu frá áramótum en 17 þeirra hafa landað minna en 20 þúsund lestum.

42 þúsund lestir í mars

Það sem af er marsmánuði hafa íslensku loðnuskipin landað 42.363 lestum af loðnu og hefur Börkur einnig verið aflamesta skipið á þessu tímabili með 3.274 lestir. Jafnframt er Vilhelm Þorsteinsson næst aflamesta skipið það sem af er mánuði með 3.124 lestir.

Það er hins vegar skip Loðnuvinnslunnar, Hoffell SU-80, sem nær þriðja sætinu og hefur landað 2.788 tonnum það sem af er marsmánuði. Þétt á eftir fylgir Víkingur AK-100, sem Brim gerir út, með 2.761 lest. Þá er Heimaey með fimmta mesta aflan það sem af er mars.

Fimm aflamestu skipin eru samanlagt með 14.640 lestir og er það 34,5% af þeim afla sem landað hefur verið í mánuðinum. Fjöldi skipa sem hafa landað í mars er sami og hefur landað frá áramótum, alls 22.

Hoffell er með þriðja mesta loðnuafla það sem af er …

Hoffell er með þriðja mesta loðnuafla það sem af er mars. mbl.is/Börkur Kjartansson


Posted

in

by

Tags: