5 C
Grindavik
8. mars, 2021

Börkur skorar á ríkisvaldið og sveitarfélög – „Ráðamenn eru oftar en ekki í fararbroddi í fagnaðarlátum“

Skyldulesning

„Erum við ekki öll í sama liði?,“ skrifar Edvard Börkur Edvardsson formaður knattspyrnudeildar Vals í pistli sínum á Facebook í dag þar sem hann skorar á ríkisvaldið, sveitarfélög og stór fyrirtæki að standa með íþróttahreyfingunni nú þegar reksturinn hjá mörgum er erfiður vegna COVID-19 veirunnar.

Börkur skrifar um það að landslið Íslands hafi náð frábærum árangri unadnfarin ár og þá sameinast þjóðin, ráðamenn eru þá duglegir að baða sig í sviðsljósinu. „Við heimkomu landsliða af stórmótum er slegið upp í stóra viðburði þar sem þúsundir Íslendinga mæta og fagna með leikmönnum, þjálfurum og starfsfólki landsliðanna. Ráðamenn eru oftar en ekki í fararbroddi í þessum fagnaðarlátum og tala um mikilvægi íþrótta og hversu gaman er þegar ,,okkar“ fólk stendur sig vel og hvað árangur þeirra sé frábær landkynning og oftar en ekki undanfari góðra markaðsherferða. Það virðist hinsvegar gleymast að landsliðsfólk okkar og flestir þjálfarar eiga rætur sínar að rekja til íslenskra knattspyrnuliða. Félögin hafa langflest sýnt metnað og fagleg vinnubrögð við að skapa sem besta umgjörð og aðstæður fyrir iðkendur og hafa á sínum snærum vel menntaða þjálfara og starfsfólk.“

Börkur segir að mikill tekjubrestur hafi átt sér stað vegna takmanna sem ríkisvaldið beitir á íþróttahreyfinguna.

„Á þennan hátt, ásamt því að treysta á starf sjálfboðaliða, hefur félögunum tekist að skapa jarðveg sem okkar afreksfólk hefur blómstrað í og mörg hver verða atvinnumenn og landsliðsfólk. Hér á landi er knattspyrnan í efstu deild orðin atvinnugrein sem fjöldi fólks hefur lífsviðurværi sitt af og starfsmenn, þjálfarar og leikmenn eru á launaskrá félaganna. Líkt og margar atvinnugreinar hafa íþróttafélög þurft að stöðva sína starfsemi og loka starfsstöðvum sínum með tilheyrandi tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Tekjutap vegna miðasölu, veitingasölu o.þ.h í tengslum við leiki félagana er algjört og ekki séð fyrir endann á því hvernig þau klóra sig fram úr þeirri stöðu. Eins hafa mörg íþróttafélög tekjur af því að leigja út hluta af sinni aðstöðu og gera ráð fyrir þeim tekjum í sínum rekstraráætlunum. Í ljósi þess að samkomu-, æfinga- og keppnisbann og þær takmarkanir sem stjórnvöld hafa sett á, sérstaklega á þeim tíma sem árs sem hvað mest er að gera í slíkri útleigu t.d vegna árshátíða og annarra viðburða, eru íþróttafélög mörg hver tekjulaus eða tekjulítil og áætlanir ársins 2020 löngu foknar út um gluggann.“

Börkur skorar á ríki, sveiarfélög og stærri fyrirtæki að koma með fjármuni inn í íþróttina sem fyrst. „Nú verður ríkisvaldið, sveitarfélög og stærri fyrirtæki að koma miklu betur að málum með beinum fjárveitingum ásamt uppbyggingu mannvirkja til íþróttafélagana þar sem afleiðingar samkomu,-æfinga- og keppnisbanns á rekstur þeirra er gríðarlegur. Það má í raun segja að samfélagsleg ábyrgð þessara aðila sé mikil. Menn verða að átta sig á því að grunnur landsliða eru félögin og ef enginn grunnur er þá rísa vart veggir og þak eða falla auðveldlega niður. Knattspyrna efstu deildar er orðinn atvinnumennska og æfingamagn hefur aukist samhliða þeirri þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Velta efstu deildar karla árið 2019 var til að mynda 3 miljarðar og knattspyrnan orðinn stór atvinnugrein.“

„Knattspyrnumenn og konur æfa allt árið í kring og þessi löngu stopp sökum æfinga- og keppnisbanns geta haft afleiðingar á frammistöðu þeirra, samkeppnishæfni og atvinnumöguleika. Það er í raun fráleitt að bera saman og leggja að jöfnu afreksíþróttir og almenningsíþróttir eins og sóttvarnaryfirvöld, heilbrigðisráðherra og mennta- og íþróttamálaráðherra hafa gert enda er það ekki gert í nágrannalöndum okkar og það má í framhaldi spyrja sig hvort keppnis- og æfingabann (þrátt fyrir undanþágu) hafi haft neikvæð áhrif á þátttöku Íslenskra liða Evrópukeppnum þetta árið og skekkt alþjóðlegan samanburð, valdið fjárhagslegu tjóni sem hefur áhrif til lengri tíma. Smit í fótboltaleik eru fátíð eins og rannsóknir sýna enda eru snertingar inni á vellinum mjög takmarkaðar og í mjög stuttan tíma. Það er sorglegt og til þess fallið að draga kraftinn, metnaðinn og viljann úr knattspyrnustarfi félagana að lesa og heyra það skilningsleysi og aðgerðarleysi yfirvalda um afreksíþróttir og það starf sem er unnið.“

Erum við ekki öll í sama liði?

Landslið Íslands í knattspyrnu kvenna og karla hafa náð frábærum árangri á undanförnum…

Posted by Valur Fótbolti on Monday, 7 December 2020

Innlendar Fréttir