5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Börn 11 ára og yngri fá frítt í strætó

Skyldulesning

Þetta eru góð tíðindi fyrir barnafjölskyldur.

Frá og með 3. janúar 2021 munu börn 11 ára og yngri fá frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Árskort fyrir börn 6 til 11 ára kostar í dag 9.100 krónur.

Til að byrja með, verður börnum sem eru 11 ára og yngri hleypt um borð í vagnana án fargjalds. Þegar „Klapp“, nýja greiðslukerfi Strætó verður innleitt þurfa öll börn að vera með sérstakt kort eða app sem verður skannað um borð í vagninum, að því er kemur fram í tilkynningu frá Strætó. Síðar verður auglýst hvernig hægt verður að sækja um slíka greiðslumiðla. Áætlað er að nýja greiðslukerfið verði tekið í notkun í apríl 2021.

„Við hjá Strætó teljum þetta mikla þjónustubót fyrir barnafjölskyldur og hvati til þess að minnka skutl í skóla eða íþrótta- og tómstundastarf,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó, í tilkynningunni.

Að öðru leyti mun gjaldskrá Strætó fylgja almennu verðlagi og hún hækkar að meðaltali um 2,6%.

Almennt staðgreiðslufargjald hækkar til dæmis um 10 krónur og verður 490 kr. frá og með 3. janúar. Afsláttar-staðgreiðslufargjald fyrir ungmenni, eldri borgara og öryrkja hækkar um 5 krónur og verður 245 krónur.

Innlendar Fréttir