10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Börnin úr Kjálkafirði í skóla á Þingeyri um Dýrafjarðargöng

Skyldulesning

Foreldrarnir sem byggðu eyðijörð í Kjálkafirði kjósa að senda börnin sín í skóla á Þingeyri fremur en á Patreksfjörð og nýta sér þannig nýopnuð Dýrafjarðargöng. Þannig stytta þau tíma barnanna í skólaakstri úr þremur klukkustundum á dag niður í tvær klukkustundir á dag.

Í fréttum Stöðvar 2 var aftur fjallað um fjölskylduna sem flutti í vor inn í nýtt hús að Auðnum í Kjálkafirði. Þau eru með þrjú börn, þar af tvö á leik- og grunnskólaaldri, 2ja og 6 ára.

En þá vaknaði spurningin: Hvert áttu börnin að fara í skóla? Það flækir málin að fyrir fjórum árum lokaði bæjarstjórn Vesturbyggðar sveitaskólanum á Birkimel vegna fækkunar barna á Barðaströnd.

Valgerður Ingvadóttir, sjómaður á Auðshaugi, er amma barnanna á Auðnum.Egill Aðalsteinsson

„Því var lofað að opna hann aftur þegar tækifæri gæfist til. Nú eru komin tólf börn í sveitina, þrjú á skólaaldri og restin alveg niður í nokkurra daga gamalt. Og það á ekki að gera neitt,“ segir Valgerður Ingvadóttir, sjómaður á Auðshaugi og amma barnanna á Auðnum.

Hún segir að verið sé að aka börnunum yfir stórhættulegar heiðar, til Patreksfjarðar um Kleifaheiði og Raknadalshlíð, þar sem snjóflóð séu tíð.

Frá Patreksfirði. Grunnskólinn er með rauðu þökunum ofan við kirkjuna fyrir aftan sundlaugina og iþróttahúsið.Egill Aðalsteinsson

Vesturbyggð býður foreldrum í sveitunum upp á skólaakstur á Patreksfjörð. Þau á Auðnum sáu hins vegar Þingeyri sem skárri valkost eftir að Dýrafjarðargöng voru opnuð.

„Síðan eru þeir að vinna í því að gera Dynjandisheiðina að alvöru vegi. Og hún á að vera opin núna allan veturinn eða fimm daga í viku,“ segir pabbi barnanna, Símon Kristinn Þorkelsson húsasmiður.

Símon Kristinn Þorkelsson húsasmiður við nýja íbúðarhúsið í Kjálkafirði.Egill Aðalsteinsson

Frá Auðnum að gamla skólahúsinu á Birkimel eru 38 kílómetrar, til Patreksfjarðar 78 kílómetrar en til Þingeyrar 74 kílómetrar.

Valgerður á Auðshaugi, amma barnanna, segir að akstur á Patreksfjörð þýði í reynd þriggja tíma veru barnanna í skólabíl á dag, sem aki börnunum heim á bæi og síðast að Auðnum. Með því að pabbinn aki þeim á Þingeyri séu þetta tveir tímar.

Frá Þingeyri. Grunnskólinn sést fremst fyrir miðri mynd.Egill Aðalsteinsson

„Þau fara með sín börn á Þingeyri. Það er aðeins styttra. Og svo þegar vegurinn verður orðinn góður yfir Dynjandisheiðina – vonandi 2-3 ár kannski í það – þá verður þetta bara miklu betri leið. Miklu betra að fara þessa leið heldur en vestur eftir,“ segir Valgerður.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Hér má sjá frétt frá árinu 2016 um lokun skólans á Barðaströnd:

Einnig var fjallað um byggðina á Barðaströnd og skólann á Birkimel í þættinum Um land allt árið 2014, sem sjá má hér:

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir