Landspítalinn hefur sett á fót samskiptamiðstöð fjarheilbrigðisþjónustu til að bregðast við því að björgunarflug Landhelgisgæslunnar verður ekki tiltækt um helgina. Læknar í Reykjavík geta aðstoðað heilbrigðisstarfsfólk úti á landi ef bráðatilfelli koma upp.
Samskiptamiðstöðin var tekin í gagnið í gær á Landspítalanum í Fossvogi. Verkefninu var flýtt vegna stöðunnar sem kom upp hjá Landhelgisgæslunni þar sem björgunarflug liggur tímabundið niðri vegna verkfallsaðgerða flugvirkja í vikunni.
„Markmiðið er að bjóða uppá aukinn stuðning við heilbrigðisstofnanir landsins þegar bráðaatvik koma upp,“ segir Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir bráðalækninga á Landspítala.
Að auki muni Landspítalinn útvega þyrlulæknum Landhelgisgæslunnar ökutæki til að keyra á móts við sjúkrabíla ef bráðatilfelli koma upp út á landi. Jón segir að þjónustan geti til að mynda nýst heilbrigðisstarfsfólki á landsbyggðinni ef og þegar bílslys verður.
„Í slíkum tilfellum hafa sjúklingar verið sóttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar. En nú geta heilbrigðisstarfsmenn hringt í sérfræðilækninn okkar og fengið ráð á meðan verið er að koma sjúklingnum á spítala,“ segir Jón.

Þá getur læknir í Reykjavík líka skoðað sjúklinginn eða gögn sem honum tengjast á sama tíma og það er gert út á landi.
„Við getum þá skoðað sjúklinginn á sama tíma og heilbrigðisstarfsmaður gerir það út á landi og tekið ákvarðanir með viðkomandi um hvers konar sjúkdómur hrjáir einstaklinginn,“ segir Jón.
Jón segir að farið verði að öllum persónuverndarreglum í ferlinu. Boðið verði áfram upp á þjónustuna á spítalanum.
„Við vonumst til að þetta sé liður í því að bæta bráðaþjónustu um land allt,“ segir hann að lokum.
Tengdar fréttir

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um lög til að binda enda á verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslu Íslands.

Það er með öllu óásættanlegt að mannanna verk valdi skertu öryggi íbúa utan höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma og aftakaveður geisar á landinu, veðuraðstæður sem geta gert almennt sjúkraflug ómögulegt, liggur neyðarþjónusta björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar alfarið niðri.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.