7 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Bræður ákærðir fyrir fjársvik tengd trúfélagi

Skyldulesning

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson (t.v.) og Einar Ágústsson hafa verið …

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson (t.v.) og Einar Ágústsson hafa verið ákærðir fyrir fjársvik og peningaþvætti upp á tugi milljóna í tengslum við starfsemi félagsins Zuism trúfélag

Samsett mynd

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir fjársvik og peningaþvætti í tengslum við starfsemi félagsins Zuism trúfélag. Eru þeir sagðir hafa svikið úr ríkissjóði um 85 milljónir sem greiddar voru út í formi sóknargjalda án þess að hafa uppfyllt skilyrði sem skráð trúfélag.

Í ákæru málsins kemur fram að auk þeirra bræðra höfði embættið málið gegn Zuism trúfélagi og einkahlutafélaginu EAF, sem Einar er skráður fyrir og bandaríska félaginu Threescore LLC, sem er skráð í Delaware, en Einar er skráður fyrirsvarsmaður félagsins. Vísir greindi fyrst frá ákærunni.

Eru bræðurnir sagðir hafa „styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags samkvæmt lögum nr. 108/1999, um skráð trúfélög og lífskoðunarfélög.“ Með þessu hafi þeir fengið greiddar 84,7 milljónir úr ríkissjóði í formi sóknargjalda, í samtals 36 skipti, á árunum 2017 til 2019. „Með þessu ollu ákærðu íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártjóni í reynd,“ segir í ákærunni.

Kemur þar jafnframt fram að „blekkingar ákærðu“ hafi lotið að því að innan félagins væri lögð stund á átrúnað eða trú í virkri og stöðugri starfsemi og að trúarbrögðin hefðu náð fótfestu hér á landi og að í félaginu væri kjarni félagsmanna sem tæki þátt í starfsemi þess og styddi lífsgildi þess í samræmi við kenningar þær sem trúfélagið var stofnað um.

„Í raun fór hins vegar ekki fram á vegum trúfélagsins nein eiginleg trúariðkun eða tengd starfsemi sem gat samræmst með réttu þessum lagaskilyrðum,“ segir í ákærunni. Þá hafi fjármunir sem runnu til trúfélagsins frá ríkissjóði í raun ekki verið varið til eða í þágu eiginlegrar trúariðkunar eða tengdrar starfsemi, heldur verið ráðstafað með öðrum og óskyldum hætti, meðal annars í þágu bræðranna, „sem fóru einir með prókúru trúfélagsins, ráðstöfun fjármuna þess og stjórn þess í reynd,“ segir í ákærunni.

Segir í ákærunni að bræðurnir hafi blekkt starfsmenn stjórnvalda, meðal annars hjá sýslumanninum á Norðurlandi eystra og Fjársýslu ríkisins, og sagt þeim að trúfélagið uppfyllti lögbundin skilyrði skráningar.

Kemur fram að Ágúst hafi meðal annars sent röng eða villandi gögn og upplýsingar til stjórnvalda varðandi trúfélagið, meðal annars til þjóðskrár og fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Þá hafi Ágúst jafnframt gefið út rangar eða villandi yfirlýsingar um málefni trúfélagsins sem voru til þess fallnar að styðja og viðhalda opinberlega gagnvart almenningi sömu röngu hugmynd um trúfélagið.

Er meðal annars vísað til þess að með breytingum á samþykktum félagsins sem þeir sendu inn í desember 2015 hafi þeir reynt efnislega að einskorða og festa til framtíðar öll yfirráð sín yfir félaginu, þar með yfir fjárreiðum þess almennt og ráðstöfun sóknargjalda. Jafnframt reynt að girða fyrir að aðrir en sitjandi stjórn og þáverandi stjórnarmenn gætu komist til áhrifa innan félagsins.

Samkvæmt ákærunni millifærði Einar á ákærutímabilinu 46,4 milljónir af bankareikningi Zuism yfir á einkahlutafélagið EAF. Eigandi EAF var félagið Skajaquoda Capital LLC, en það var í raunverulegri eigu Einars. Hefur það félag áður komið fyrir í dómsmáli gegn Einari, en Landsréttur staðfesti árið 2018 dóm yfir honum fyrir að hafa svikið tugi milljóna af fjórum einstaklingum. Var hann dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir brotið.

Auk millifærslnanna var látið líta út fyrir að EAF hefði lánað Zuism fjármuni og að Zuism hefði keypt EAF af Skajaquoda.

Var stór hluti fyrrgreindrar upphæðar, samtals 39,6 milljónir millifært á reikning EAF hjá verðbréfafyrirtæki í Bretlandi og á bankareikning Einars í JPMorgan í Bandaríkjunum. Þaðan var stór hluti fjármunanna fluttur á reikning Threescore LLC.

Það sem eftir stóð af fjármunum félagsins var meðal annars nýtt til að kaupa í verðbréfasjóði hjá Íslandsbanka fyrir 19,5 milljónir, kaupa hlutabréf í Heimavöllum og Arion banka og í millifærslur á reikninga í eigu ákærðu sjálfra.

Fram kemur að ráðstafað hafi verið um 6,6 milljónum króna í svonefndar endurgreiðslur á trúfélagsgjöldum, en ein megin skýring þess að fólk skráði sig í félagið á sínum tíma voru loforð um að félagsmenn fengju sóknargjöld endurgreidd. Þá greiddi félagið 9,7 milljónir í lögfræðikostnað, 2,4 milljónir í styrkgreiðslur til góðgerðamála og 2,3 milljónir í aðrar greiðslur.

Þá tóku bræðurnir út 6,4 milljónir í reiðufé af reikningum félagsins og 4,4 milljónir voru notaðar í vöru- og þjónustukaup, svo sem hjá veitingahúsum, áfengisverslunum, eldsneytisstöðvum, matvöruverslunum og fjarskiptafyrirtækjum svo og vegna ferðakostnaðar. Innistæða Zuism í maí 2019 nam 1,3 milljónum og var sú fjárhæð haldlögð. Innistæða á bankareikning EAF nam fjórum krónum.

Auk refsingar er farið fram á að eignir umræddrar félaga verði gerðar upptækar.

Innlendar Fréttir