Brak og höfuðkúpa tengist flugslysi frá 2008

0
194

Lögreglan á Suðurnesjum segir að rannsóknarnefnd samgönguslysa telji það staðfest að brak úr flugvél og brot úr höfuðkúpu, sem komu í veiðarfæri skipsins Hrafns Sveinbjarnarsonar GK-255 8. mars, séu úr flugslysi sem varð vestan við Reykjanes fyrir 15 árum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. 

Þar kemur fram, að skipið hafi komið snemma í morgun til hafnar í Grindavík með brakið og höfuðkúpubrotið.

Lögreglan segir jafnframt að á svipuðum slóðum og skipið hafði verið á veiðum fórst lítil tveggja hreyfla ferjuflugvél þann 11. febrúar 2008 og með henni flugmaður, sem var einn um borð.

„Eftir skoðun rannsóknarnefndar samgönguslysa á munum þeim sem komið var með að landi í morgun, er talið að staðfest sé að um sé að ræða flugvélarparta úr flugvélinni sem fórst vestan við Reykjanes fyrir um 15 árum. Sá rannsóknarhluti málsins sem snýr að líkamsleifum er í höndum kennslanefndar ríkislögreglustjóra.“