10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

Breytir neyslunni um helgina

Skyldulesning

Sumarstemming í Hafnarstræti fyrr í vikunni.

„Þetta er ein af stærstu söluvikum ársins þannig að við erum alltaf með talsverðan undirbúning fyrir þetta,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið. Verslunarmannahelgin er í garð gengin og þá gera margir sér glaðan dag. Andri segir að hjá Ölgerðinni sé vanalega framleitt meira af vörum sem seljast vel á þessum tíma árs. Gos, bjór og sódavatn, auk snakks, séu dæmi um vörur sem seljast vel um verslunarmannahelgi.

Spurður hvernig nýtilkomnar sóttvarnareglur hafi áhrif á helgina í sölu segir hann þær setja strik í reikninginn að ákveðnu leyti.

„Já, það breytir sölu á börunum. Svo auðvitað fer miklu minna til Vestmannaeyja og á staði sem áttu að vera með útihátíðir,“ segir Andri, en Ölgerðin hefur styrkt Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um árabil.

„Það verður auðvitað bara brotabrot af sölunni sem var áætluð í Eyjum,“ segir Andri en undirbúningurinn var mjög langt kominn og fjöldinn allur af vörum, kælum og öðrum búnaði frá Ölgerðinni kominn til Eyja.

Engar hátíðir en þó er álag

Þótt óvissa sé í loftinu er þó nóg að gera. „Það er náttúrlega óvissa. Við vitum voða lítið. Tjaldstæðin eru líka mjög takmörkuð og það má kannski ætla að fólk sé minna á ferðinni. Engu að síður er alveg gríðarlega mikið að gera hjá okkur. Mikið um pantanir og ekki að sjá að þetta hafi mjög mikil áhrif,“ segir Andri.

Mikið álag var því í aðdraganda helgarinnar. „Bæði er þetta stærsta vika ársins og síðan erum við fáliðuð út af sóttkvíarmálum,“ segir hann, en kórónuveirusmit greindist hjá starfsmanni og var hálfur lagerinn sendur í sóttkví. „Þannig að við erum bara með hálf afköst í vöruhúsi. Misstum þarna slatta af fólki því miður.“

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, hefur svipaða sögu að segja og Andri. „Þetta hefur náttúrlega verið stærsta söluvika ársins í mörg ár,“ segir hann og rekur að fyrirtækið selji mikið af grillmat um verslunarmannahelgar; lambakjöt, nautakjöt og folaldakjöt og vitaskuld pylsur.

Salan dreifist meira

„Það er hins vegar svolítið erfitt að átta sig á hvernig þessi staða með engar útihátíðir er, hvaða áhrif þetta hefur. Það kannski breytir aðeins neyslunni. Ef þú ert heima hjá þér eldarðu kannski frekar læri en ef þú ert í tjaldi uppi í sveit.“

Spurður hvort vöruframboð SS hafi breyst í kjölfar sóttvarnareglna segir hann svo vera upp að vissu marki. „Við bættum aðeins í og jukum við framboð á kryddlegnu SS-læri. Erum með það á tilboði núna,“ segir Steinþór. Þar að auki dreifist salan meira. „Áður fór kannski gríðarlegt magn til Vestmannaeyja, en nú fer þetta á miklu fleiri staði.“

Uppsöfnuð grillþörf vegna veðurs

Þá skiptir veðurspáin einnig miklu máli. „Það getur verið mjög mikill, jafnvel helmingsmunur, í grillkjötssölu eftir því hvernig veðrið er. Það eykst alltaf kjöt í neyslu ef það er gott veður. Fólk grillar oftar úti ef það er gott veður en ef rignir. Þannig að núna getum við sagt að það séu mjög góðir grill- og kjötsöludagar fram undan.

Við erum náttúruega bara alltaf að horfa viku fram í tímann á veðurspána og við breytum í raun framleiðslu eftir því hvernig veðurspáin er. Sérstaklega í þessu svokallaða grillkjöti.“

Óttast ekki brot á sóttvarnareglum um helgina

Viðbúnaður lögreglu um land allt er vægast sagt minni en stefndi í áður en sóttvarnaaðgerðir voru kynntar á föstudaginn fyrir rúmri viku. 

„Það verður ekkert í líkingu við það sem stefndi í ef það hefði verið haldin hér Þjóðhátíð,“ segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum. Hvort þau hræðist það að fólk hópist saman, þvert á tilmæli sóttvarnalæknis, í Herjólfsdal segir hann svo ekki vera. „Nei, ég hræðist það ekki neitt. Það voru um 100 í fyrra og þetta fór bara vel fram. Fólk var ekkert að safnast saman í dalnum þá,“ segir Jóhannes.

Á Norðurlandi er spáin góð og væntanlega margir sem sækja í sólina.

„Við ætluðum að hafa aðeins meiri viðbúnað en svo þurfum við auðvitað að setja okkur reglur líka, okkur til verndar,“ segir Jóhann Ólafsen, varðstjóri lögreglunnar á Akureyri, en þau reyna að forðast að blanda fólki milli vakta. „Þannig að við sláum af aukamönnum sem við ætluðum að hafa,“ segir Jóhann. Þá reiknar lögreglan á Akureyri með að minna verði um að vera vegna sóttvarnareglna og óttast ekki að fólk fari þvert á tilmæli sóttvarnalæknis. „Fólk hefur allavega sýnt fram að þessu að það vill fara eftir þessum reglum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir