5 C
Grindavik
12. maí, 2021

Brosað til að lifa af

Skyldulesning

Sjónvarpið mitt„Gurrí, ekki fara á gosstöðvarnar, bara alls ekki, þetta er svo ofmetið,“ sagði vinkona mín nýlega. Hún sagði mér að hún hefði nánast dáið við að sjá þetta gos sem væri svo miklu flottara í sjónvarpinu … svona þegar sést í það fyrir fólki sem veifar og pirrar. (Þetta appelsínugula til vinstri á myndinni er til dæmis ekki eldgos.)

Eldri systir vinkonu minnar skokkaði þetta eldhress og fór síðan í langan hjólreiðatúr um kvöldið á meðan vinkona mín hefur ekki getað ryksugað nú í tvo daga. „Þótt ég hefði misst af mér fínu, nýju skóna mína, hefði ég ekki getað tekið þá upp, ég hugsaði bara um að ganga og lifa af,“ sagði hún. Þessi vinkona mín er í fínu formi, með sixpakk og allt, en vissulega var hvorki vatn né nesti með í för og það nánast drap hana á meðan eldri systir hennar blés ekki úr nös, drakk hvorki né nærðist en hafði nákvæmlega ekkert fyrir þessu. Mögulega eru vélmenni á meðal vor, ég sá Terminator á sínum tíma. Flott heimildamynd. 

Í gærkvöldi setti ég inn á Facebook mynd sem tekin var árið 1970 á Langasandinum og Sementsverksmiðjan í baksýn. Frá vinstri: Mía systir, ég, Gummi bró, mamma og Mínerva amma. Hvar varstu, Hilda mín? 

Á Langasandi fyrir lönguÉg minntist á að þarna hefði mamma verið 36 ára, farið í lagningu vikulega og oft gengið með slæðu á höfðinu. Amma dó í febrúar 1971 og í ágúst sama ár fluttum við fjölskyldan til Reykjavíkur – sem eftir á að hyggja var skelfilegt fyrir krakka á þessum aldri – upp á sjálfstraust, einkunnir, félagsskap og fleira.

Það var svo gaman að sjá þessa mynd sem Haraldur frændi frá Ameríku tók í einni heimsókn sinni til landsins, svo fáar til úr æsku, en ég sé að ég var komin með attitjúd þarna, yfirleitt alvarleg á svip, enda lífið ekkert til að grínast með, og var mjög örugg með sjálfa mig. Gekk vel í skóla, átti góða vini og lifði fyrir að lesa þótt þessar tvær bækur sem mátti taka á dag í Bókasafni Akraness á þessum tíma, dygðu mér ekki. (Því var í raun kominn tími á að flytja því Borgarbókasafnið leyfði fólki að taka eins margar að það vildi.)

Þegar við fluttum hvarf einhvern veginn allt sem ég hafði staðið fyrir, ég þurfti að byrja upp á nýtt. Þarna byrjaði ég að brosa – einfaldlega til að halda lífi og gerði mitt besta að fitna svo ég sæist síður. Það mátti alls ekki skera sig úr. Ég gerði það á Króknum 1974-1975 (Álafossúlpa og þröngar niður gallabuxur með heklaðri dúllu á lærinu … allir í terlínbuxum nema við Óli Matt) og uppskar uppnefnið Mafíuforinginn

En þarna, nýflutt í bæinn, 13 ára, fékk ég gælunafnið mitt, fyrst Gurra, svo Gurrý og síðan ákvað ég sjálf að hafa það Gurrí og fékk hvetjandi samþykki til þess hjá Orðabók Háskólans sem ég hringdi í þegar vinnufélagi sagði að það ætti að vera ufsilon.

Hilda og fleiri myndirEftir að einkunnir höfðu lækkað og ég farin að láta henda mér út úr tímum, í leit að minni hillu, hví ekki sem villingur? ákvað Hjalti skólastjóri (og föðurbróðir minn) að færa mig yfir í annan bekk.

(Þriðja myndin: Þarna sést Hilda þar sem hún situr við píanóið, svo er mynd frá Bakkatúni á Akranesi, ein af okkur Míu systur og önnur frá Langasandi)

Í nýja bekknum eignaðist ég góða vinkonu og þá varð allt betra, samt fannst mér þetta aldrei slæmt á meðan á því stóð, bara þegar ég hugsa til baka.

Auðvitað spjaraði ég mig, og við gerðum það öll systkinin þrátt fyrir allt rótleysið, og óvíst að lífið hefði orðið betra þótt við hefðum aldrei flutt frá Akranesi. Kannski hefði ég orðið kennari á Akranesi og væri jafnvel forseti bæjarstjórnar þar í dag, eða kannski farið í bókasafnsfræði eins og mig dreymdi um. En aldrei að segja kannski …


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir