Brýnar á­bendingar fjár­mála­sviðs sitja á hakanum – Innherji

0
52

Ritstjórn Innherja skrifar 2. maí 2023 14:05

Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar hefur um árabil brýnt fyrir borginni að skilgreina þak á erlendar skuldir Orkuveitu Reykjavíkur og að gera aðgerðaáætlun um það hvernig beinum ábyrgðum borgarsjóðs á lánum Orkuveitunnar verði mætt.

Samhliða birtingu á uppgjöri Reykjavíkurborgar birti fjármála- og áhættustýringarsvið skýrslu um uppgjörið eins og venjan er. Í þessum skýrslum má meðal annars finna tillögur sviðsins um hvað megi betur fara í stýringu borgarsjóðs.

Í síðustu viku kom fjármálasviðið með fjórar ábendingar sem vörðuðu Orkuveitu Reykjavíkur, dótturfélag Reykjavíkurborgar. Fyrst benti sviðið á að framlegð Orkuveitunnar væri 62,7 prósent og hefði veikst um 1,9 prósentustig miðað við sama tímabil í fyrra.

„Mikilvægt er að framlegð reksturs OR haldist stöðug og góð þar sem fyrirtækið er viðkvæmt vegna ytri þátta; vaxta, gengis og álverðs,“ segir í skýrslunni.

Þá telur sviðið brýnt að endurskoða eigendastefnu Orkuveitunnar til að tryggja að stefnan nái betur utan um umfang og áskoranir dótturfélaga, svo sem Carbfix og Ljósleiðarans.

Hinar tvær ábendingarnar hafa ítrekað birst í skýrslum fjármála- og áhættustýringarsviðs – að minnsta kosti frá árinu 2019 – sem gefur til kynna að borgin hafi ekki bætt úr ráði sínu. Þannig hefur fjármálasviðið ítrekað bent borginni á að gera þurfi aðgerðaáætlun um hvernig mæta skuli ábyrgðum á lánum Orkuveitunnar ef á reynir en lán með eigendaábyrgð nema samtals 65,1 milljarði króna.

Einnig hefur sviðið talið „brýnt“ svo árum skiptir að skilgreina þak á erlendar skuldir Orkuveitunnar.

„Fjármála- og áhættustýringarsvið telur brýnt fyrir borgarsjóð að skilgreint sé þak á erlendar skuldir OR til lengri tíma, t.d. með hliðsjón af tekjum, framlegð, greiðsluflæði í erlendum myntum eða jafnvægi í efnahag og að sett séu skýr markmið um aðlögun að slíku markmiði,“ segir í skýrslunni.

Erlendar skuldir Orkuveitunnar námu 64 milljörðum króna í lok árs 2022 samanborið við innlendar skuldir upp á tæplega 107 milljarða króna.

Halli á A-hluta, þeim hluta rekstrar borgarinnar sem fjármagnaður er með skatttekjum, var 15,6 milljarðar króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða halla. Reykjavíkurborg hefur sagt að það fylgi ekki nægt fé með málefnum fatlaðra frá ríkinu. Fram kemur í tilkynningu með uppgjörinu að rekstrarniðurstaða borgarinnar án halla af málefnum fatlaðs fólks hafi verið neikvæð um 6,4 milljarða króna en hallinn af málaflokknum nam 9,3 milljöðrum króna á árinu.

Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Mest lesið
Fleiri fréttir Sjá meira