5 C
Grindavik
9. maí, 2021

Brynjari fannst KKÍ fara of geyst af stað: „Hefðu átt að grípa inn í og byrja að spila í janúar“

Skyldulesning

Brynjar Þór Björnsson hefði viljað sjá KKÍ og ÍSÍ taka betri ákvarðanir í kórónuveirufaraldrinum og æfingabanninu sem hefur ríkt á Íslandi síðan í byrjun október.

Brynjar Þór Björnsson, körfuboltamaður í KR, segir að hann hefði viljað sjá forystu ÍSÍ koma fyrr inn og hjálpa afreksíþróttafólki að fá að æfa. Þetta sagði Brynjar í Domino’s Körfuboltakvöldi á föstudagskvöldið.

Hvorki hefur verið leikið né æfður körfubolti síðan í byrjun október en Brynjar er reynslumikill og hann heldur sér vel við. Hann æfir vel, passar hvað hann er að borða en segir að þetta komi væntanlega verr við yngri leikmennina.

„Maður reynir að halda sér í góðu standi. Maður er orðinn 32 ára og er kominn með ákveðna þekkingu í hverju maður er góður. Þetta er kannski öðruvísi ef maður væri yngri og enn æstari í að æfa. Maður reynir að hugsa vel um líkamann, borða hollt og bæta ekki of mörgum kílóum á sig. Maður reynir að bæta sig í einhverju öðru heldur en körfubolta,“ sagði Brynjar.

Brynjar Þór segir að KKÍ, þegar boltinn var stöðvaður í október, hefði í fyrsta lagi átt að hefja leik í janúar. Hann skildi ekki af hverju væri verið að drífa sig svona mikið.

„Auðvitað er þetta leiðigjarnt en ég hugsaði í október þegar við fórum í stopp að KKÍ hefði bara átt að grípa inn í og segja að við spilum ekki fyrr en í janúar. Mér fannst það meira segja í haust að áður en við byrjuðum að spila og æfa; af hverju erum við að drífa okkur svona mikið og af hverju eru liðin að draga þrjá til fjóra leikmenn til sín þegar óvissan er svona mikil.“

„Þetta er búið að kosta körfuboltafélög gríðarlegan pening og þetta eru peningar sem fólk er að safna saman til að borga leikmönnunum laun. Það er hart í ári en mér fannst við fara of hratt af stað í Domino’s deildinni en ég vona að við fáum að spila í janúar og klára tímabilið.“

Brynjar tók ákvörðun í fyrstu bylgjunni að mæta ekki í leik KR gegn Stjörnunni. Sú ákvörðun vakti mikið umtal en eftir á að hyggja sér Brynjar ekki eftir henni.

„Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Það voru öll fyrirtæki að hætta með sínar samkomur. Það var verið að fresta árshátíðum og stórum viðburðum en íþróttafélögin sátu eftir,“ sagði Brynjar. Hann skorar einnig á forystuna að láta meira í sér heyra.

„Við viljum heyra meira í ÍSÍ að fá að æfa. Mér finnst eins og forysta ÍSÍ sitji á hakanum með að taka ákvarðanir. Að beita sínum áhrifum á bæði íþróttalífið og Alþingismennirnir að pressa að við fáum að æfa. Við vonumst til þess að þau læri af þessu og verði fljótari til ef svipað kemur upp aftur. Vonandi þarf ÍSÍ þá ekki að treysta á að leikmennirnir pressi á þetta heldur en þeir sjálfir.“

Allt innslagið með umræðunni um æfingabannið má sjá og heyra hér að neðan.

Klippa: Domino’s Körfuboltakvöld – Umræða um æfingabann

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir