10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Búa sig undir að stríðið hafi áhrif á ferðamenn

Skyldulesning

Jóhannes segir vel fylgst með stöðunni.

Jóhannes segir vel fylgst með stöðunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhrifa innrásar Rússa í Úkraínu er ekki enn farið að gæta á bókanir ferðamanna hingað til lands, en ferðaþjónustufyrirtækin eru þó viðbúin að slíkt geti gerst og fylgst er náið með stöðunni. Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðþjónustunnar.

„Þetta getur haft áhrif á ýmsan máta. Evrópsk ferðamálayfirvöld hafa verið að gera að því skóna að þetta geti haft áhrif á ferðalög Evrópubúa. Við vitum það líka að bandaríski markaðurinn lítur stundum á Evrópu sem eina heild, að það sé stutt á milli landa. Við færum væntanlega ekki varhluta af því ef það kæmi upp slík sýn hjá ferðalöngum, en við höfum ekki orðið vör við það ennþá,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Ísland njóti þó góðs af því að vera eyja en ekki inni á meginlandinu. Það breyti því þó ekki að stríðið geti haft áhrif hér á landi.

Margir af sterkustu mörkuðunum í mikilli nálægð

„Svo sjáum við líka að ýmsir af okkar sterkustu mörkuðum eru í ansi mikilli nálægð við þetta og verða fyrir ansi miklum áhrifum og tengslum. Þýski markaðurinn til dæmis og svo Mið-Evrópu og Vestur-Evrópu markaðurinn.“

Ef stríðið dregst á langinn geti efnahagsleg áhrif haft mikið að segja. Fólk haldi þá kannski að sér höndum og eyði síður peningum í ferðalög.

„En við erum ekki farin að sjá nein áhrif af þessu ennþá og það er í rauninni mjög erfitt að spá um það. Það fer alveg ofboðslega eftir því hvernig þessi átök þróast og hversu lengi þau standa, hvort þau breiðast mikið út eða verða staðbundin og svo framvegis.“

Skýrari mynd eftir eina til tvær vikur

Aðspurður segir hann ferðaþjónustufyrirtækin þó farin að búa sig undir það stríðið í Rússlandi geti haft áhrif hér á landi.

„Ég held að það geri sér allir í bransanum grein fyrir því að þetta getur haft áhrif á fólk. Þegar það koma upp stríðsátök í Evrópu þá er það ekki eitthvað sem menn geta bara búist við að verði „business as usual.““

Jóhannes gerir ráð fyrir að komin verði skýrari mynd á stöðuna eftir eina til tvær vikur og þá verði hægt að spá betur fyrir um hvernig málin þróast.

„Við erum að fylgjast með þessari stöðu, Ferðamálastofa, Íslandsstofa og auðvitað stóru fyrirtækin, eins og flugvélögin sem þurfa að fylgjast með því sem er í gangi í loftferðabransanum og svo framvegis.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir