3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Buffon gæti fengið bann fyrir guðlast

Skyldulesning

Markvörðurinn þrautreyndi hjá Juventus, Gianluigi Buffon, gæti verið á leið í bann fyrir guðlast.

Í leik Juventus og Parma 19. desember á Buffon að hafa sagt við samherja sinn, Manolo Portanova, orðin Porco Dio sem þóttu ekki viðeigandi.

Ítalska knattspyrnusambandið hefur lokið rannsókn sinni á málinu og staðfesti í gær að það færi fyrir dómstóla.

Ef Buffon verður fundinn sekur um guðlast verður hann væntanlega dæmdur í eins leiks bann.

Nokkrir leikmenn í ítölsku úrvalsdeildinni hafa verið dæmdir í bann fyrir guðlast á undanförnum árum. Meðal þeirra er Bryan Cristante, leikmaður Roma, sem fékk eins leiks bann fyrir ummæli sem hann lét falla í leik gegn Bologna í desember.

Buffon, sem verður 43 ára á morgun, hefur leikið sex leiki fyrir Juventus á þessu tímabili en hann er varamarkvörður fyrir Wojciech Szczesny. 

Buffon kom aftur til Juventus 2019 eftir eitt tímabil hjá Paris Saint-Germain. Hann lék áður með Juventus á árunum 2001-18 og er leikjahæstur í sögu ítölsku úrvalsdeildarinnar með 653 leiki.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Innlendar Fréttir