7.4 C
Grindavik
23. júní, 2021

Búnaður fyrir á annað hundrað milljónir í skip Samherja

Skyldulesning

Oddeyrin EA, skip Samherja, hefur tekið töluverðum breytingum og verður fyrsta skip sinnar tegundar hér á landi.

Ljósmynd/Samherji

Samherji hefur undirritað samning við Slippinn á Akureyri um smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í uppsjávarskip sem félagið festi kaup á síðasta haust. Verðmæti búnaðarins er á annað hundrað milljónir króna, að því er fram kemur í færslu á vef Samherja.

Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á skipinu og eru fleiri væntanlegar um borð Oddeyrinni EA og miða þær að því að hægt verði að hefja tilraunir með að koma með lifandi bolfisk að landi til vinnslu.

Fram kemur í færslunni að slíkri aðferð hefur ekki verið beitt við togveiðar áður og gengur hún út á að fiski er dælt um borð og tankar eru útbúnir öflugu sjódælukerfi til að tryggja nægt súrefni þannig að fiskurinn haldist við góða heilsu.

Markmiðið er að koma með lifandi fiska til löndunar.

Búnaðurinn sem Slippurinn á Akureyri mun koma fyrir um borð er meðal annars ný „tegund af þvottatanki og stórum blóðgunarbrunnum sem Slippurinn hefur hannað. Blóðgunarbrunnarnir ná frá vinnsluþilfari að tanktoppi en þannig næst mikið rúmmál fyrir afla í blæðingu sem eykur gæðin.

Þá verður komið fyrir krapavél frá KAPP ehf. sem bæði verður notuð til að kæla afla í vinnslu og í lest. Með þessu er lögð áhersla á blæðingu og kælingu á þeim afla sem slátrað er um borð. Hugmyndin er samt sem áður að sem hæst hlutfall afla fari lifandi í tanka og verði afhent þannig í land. Heildarverðmæti vinnslubúnaðar frá Slippnum er á annað hundrað milljónir króna.“

Væntanlegt til Akureyrar eftir mánuð

Oddeyrin, sem áður bar heitið Western Chieftain, er í færslunni sagt lítið notað og vel búið 45 metra langt uppsjávarskip en töluverðar breytingar hafa þegar verið gerðar á því.

„Umfangsmiklar breytingar á skipinu fóru fram í Karstensen Skibsværft í Danmörku. Þar var skipið lengt um 10 metra og hefðbundnu vinnsludekki og fiskilest komið fyrir. Upphaflegir kælitankar í skipinu voru látnir halda sér en þeim breytt til að geyma lifandi fisk.

Nýju dekkhúsi, sem mun hýsa flokkunaraðstöðu, var komið upp og unnið er að því að koma fyrir búnaði til flokkunar á afla eftir að honum er dælt um borð. Töluverð vinna er enn í gangi í brú þar sem unnið er að því að uppfæra ýmsan búnað og fiskleitartæki sem henta betur til bolfiskveiða. Einnig er unnið að málningarvinnu og öðrum frágangi,“ segir í færslunni.

Þá voru áætluð verklok í mars en vegna kórónuveirufaraldursins hefur verkefnið orðið fyrir töfum. Auk þess hefur það tekið ýmsum breytingum í kjölfar þess að meðal annars áhöfnin kom sínum sjónarmiðum á framfæri.

Gert er ráð fyrir að skipið sigli til Akureyrar eftir um það bil mánuð.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir