Smyglaði am­feta­míni í vín­flöskum og hlaut þungan dóm – Vísir

0
23

Smyglaði am­feta­míni í vín­flöskum og hlaut þungan dóm Pólsk kona var í dag sakfelld í Landsrétti fyrir að hafa staðið að innflutningi á tæpum fjórum lítrum af amfetamínbasa frá heimalandinu. Landsréttur mildaði dóm hennar verulega, úr fimm og hálfu ári í fjögur ár.

Fram kemur í dómnum að þann 14.ágúst 2022 hafi konan, Anna Lefik Gawryszczak, verið stöðvuð af tollvörðum í flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt samferðakonu sinni. Báðar eru þær pólskir ríkisborgarar. Við skoðun á farangri þeirra beggja fundust fjórar vínflöskur, tvær í farangurstösku hvorrar um sig, og vaknaði grunur um að í flöskunum væri amfetamín.

Í dómi Landsréttar var til þess vísað að frásögn Önnu um það hvernig það hefði komið til að hún tók að sér að flytja umræddar flöskur til landsins væri um margt óskýr og á henni talsverður ólíkindablær. 

Þá hafi hann ekki samræmst framburði samferðakonunnar og fengi ekki heldur stoð í rannsóknargögnum. Framburður Önnu í heild sinni hafi verið metinn ótrúverðugur. 

Fyrir lægi að hún hefði tekið við flöskunum án þess að ganga úr skugga um innihald þeirra og því látið sér í léttu rúmi liggja um hvaða efni væri að ræða. Þótti ljóst að ásetningur hennar stóð til þess að flytja fíkniefnin til landsins. 

Með hliðsjón af magni og styrkleika efnanna þótti jafnframt ljóst að þau hefðu verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Ekki var fallist á með Önnu að meðferð málsins fyrir héraðsdómi hefði dregist. Með hliðsjón af dómaframkvæmd og magni og styrkleika efnanna var refsing hennar ákveðin fangelsi í fjögur ár.