Chelsea kjöldró Southampton þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í dag. Á sama tíma vann Leeds United öruggan sigur á Watford og spyrnti sér þar með enn lengra frá neðstu liðum deildarinnar.
Í Southampton varð strax ljóst í hvað stefndi. Marcos Alonso kom gestunum í Chelsea í forystu strax á áttundu mínútu eftir sendingu Mason Mount.
Mount tvöfaldaði forystuna á 16. mínútu áður en Timo Werner skoraði þriðja markið og gerði út um leikinn eftir aðeins 21 mínútu.
Eftir rúmlega hálftíma leik var staðan orðin 4:0 þegar Kai Havertz skoraði og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks bætti Werner við öðru marki sínu og fimmta marki Chelsea áður en Mount skoraði annað mark sitt og sjötta mark Chelsea.
Staðan orðin 6:0 eftir aðeins 54 mínútna leik og leikmenn og leikmenn Southampton eflaust farið að hrylla við möguleikanum á að tapa deildarleik 0:9 þriðja tímabilið í röð.
Svo fór þó ekki þar sem Chelsea lét sex mörk nægja, lokatölur 6:0.
Gott gengi Leeds heldur þá áfram þar sem liðið fór í heimsókn til Watford, sem berst fyrir lífi sínu í næstneðsta sæti deildarinnar.
Brasilíumaðurinn hæfileikaríki Raphinha, kom Leeds yfir um miðjan fyrri hálfleik. Staðan 1:0 í hálfleik.
Á 73. mínútu tvöfaldaði spænski sóknarmaðurinn Rodrigo forystu gestanna áður en Jack Harrison gerði endanlega út um leikinn með þriðja markinu skömmu fyrir leikslok.
Frækinn 3:0-sigur Leeds því niðurstaðan og hefur liðið nú unnið þrjá og gert eitt jafntefli í síðustu fjórum deildarleikjum sínum.
Leeds er nú níu stigum fyrir ofan Burnley í síðasta fallsætinu, því átjánda.