Dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir smygl – DV

0
149

Þrítugur maður var á þriðjudaginn dæmdur í 12 ára fangelsi af undirrétti í Glostrup í Danmörku. Hann var fundinn sekur um að hafa verið viðriðinn smygl á rúmlega átta kílóum af kókaíni, fimm hálfsjálfvirkum skammbyssum og skotfærum til Danmerkur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni.

Reynt var að smygla fíkniefnunum og skammbyssunum til Danmerkur í ágúst og desember 2021. Þá var bíl ekið frá Hollandi og lá leiðin til Danmerkur. En þýska lögreglan komst á snoðir um smyglið og kom í veg fyrir að smyglararnir næðu á áfangastað.

Dómurinn byggist á alþjóðlegri samvinnu lögregluliða og góðri rannsóknarvinnu að sögn Laura Wiggers, saksóknara. Hún sagðist sátt við dóminn sem sýni að það sé alvarlegur glæpur að reyna að smygla fíkniefnum og vopnum.