Í desember 2020 var Caitlyn Kaufman, 26 ára hjúkrunarfræðingur, skotin til bana þar sem hún var á leið til vinnu á St. Thomas West Hospital í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Skotið var á bíl hennar þar sem hún ók eftir hraðbraut. Nýlega var Devaunte Hill fundinn sekur um að hafa skotið hana til bana. Hann var dæmdur í 25 ára fangelsi.
ABC News segir að hann hafi játað að hafa myrt Kaufman með því að skjóta á bíl hennar úr bílnum sem hann var í. Vinur hans, James Cowan, ók bifreiðinni. Hann var einnig ákærður fyrir morð en var sýknaður.
Hvorugur þeirra þekkti Kaufman. Hill bað dóminn um að sýna sér vægð en það kom fyrir lítið því hann var dæmdur í 25 ára fangelsi eins og áður sagði. Það var þyngsta mögulega refsingin sem hann gat hlotið að sögn The Tennessean.
Fyrir dómi sagði Hill að hann hefði neytt eiturlyfja í bílnum ásamt Cowan. Hann sagði að Kaufman, sem var á leið á næturvakt, hafi sveigt inn á akreinina fyrir framan þá og hafi Cowan neyðst til að hemla og þá hafi hann reiðst. „Ég man að ég tók byssuna upp og skaut skotum en ég man ekki hversu mörgum skotum ég skaut,“ sagði hann.
ABC News segir að hann hafi skotið sex skotum og hafi eitt þeirra hæft Kaufman og banað henni.