3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Dæmdur í leikbann fyrir guðlast inn á vellinum

Skyldulesning

Leikmaður Roma má ekki taka þátt í leik ítalska liðsins á fimmtudagskvöldið kemur vegna viðbragða sín þegar hann skoraði sjálfsmark um síðustu helgi.

Bryan Cristante hjá Roma missir af leik Roma og Torino í vikunni eftir að hafa verið dæmdur í eins leiks bann. Cristante fékk ekki spjald eða braut á andstæðingi í síðasta leik heldur kom sér í vandræði á allt annan hátt.

Myndavélarnar náðu því þegar Bryan Cristante blótaði guði eftir að hafa skorað klaufalegt sjálfsmark í leik á móti Bologna.

Frá árinu 2010 þá hafa verið mjög strangar reglur á Ítalíu sem banna allt guðlast leikmanna inn á fótboltavellinum.

Ítalska knattspyrnusambandið taldi sig því þurfa að refsa Cristante sem og það gerði.

Staðan var 3-0 fyrir Roma í leiknum þegar hann skoraði sjálfsmarkið og Roma vann leikinn á endanum 5-1. Sjálfsmarkið skipti því ekki miklu máli en svekkelsi leikmannsins kom honum í vandræði hjá agnefnd ítalska knattspyrnusambandsins.

Í dómnum kemur fram að guðlast Bryan Cristante hafi komið vel fram á sjónvarpmyndavélinum en myndavélarnar fóru auðvitað beint á hann eftir að hann sendi boltann í eigið mark.

Bryan Cristante er ekki fyrsti leikmaðurinn sem fær svona leikbann því í október 2019 voru Francesco Magnanelli hjá Sassuolo og Matteo Scozzarella hjá Parma einnig dæmdir í eins leiks bann fyrir sömu sakir.

Árið 2018 fór Rolando Mandragora hjá Udinese einnig í bann fyrir að líka guði við hund. Gian Piero Gasperini, knattspyrnustjóri Atalanta, fór einnig í eins leiks bann fyrir að kalla guð svín.

Innlendar Fréttir