7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Diego Maradona er látinn

Skyldulesning

Argentínski knattspyrnukappinn Diego Armando Maradona er látinn sextugur að aldri. Frá þessu greina miðlar í Argentínu. Maradona lést af völdum hjartaáfalls.

Maradona er af flestum talinn einn besti ef ekki besti knattspyrnumaður allra tíma. Hann varð heimsmeistari með Argentínu árið 1986 þar sem segja má að frægðarsól hans hafi skinið hvað skærast.

Á mótinu sem fram fór í Mexíkó skoraði Maradona sín frægustu mörk, í 2-1 sigri á Englandi í átta liða úrslitum keppninnar. Hið fyrra með hendi, hendi guðs eins og hann sagði sjálfur. 

Hið síðara eftir mikinn einleik.

Maradona leiddi argentínska landsliðið alla leið í úrslitaleikinn á HM á Ítalíu 1990. Segja má að hann hafi spilað á heimavelli í keppninni enda þáverandi leikmaður Napólí í samnefndri ítalskri borg í suðurhluta landsins. Með Napólí varð hann meðal annars tvívegis ítalskur meistari og er í guðatölu hjá félaginu.

Hann skoraði 34 mörk í 91 landsleik fyrir þjóð sína.

Gerðist þjálfari

Maradona spilaði með Argentinos Juniors, Boca Juniors, Napólí og Barcelona og átti aðdáendur um allan heim. Örvfætti smávaxni snillingurinn sneri sér að þjálfun síðar á ferlinum og stýrði meðal annars argentínska landsliðinu og landsliði Argentínu skipað leikmönnum yngri en tuttugu ára.

Reyndar kom Maradona nokkuð víða við sem þjálfari félagsliða, í heimlandi sínu, Saudí Arabíu og Mexíkó, en entist yfirleitt ekki lengi í starfi. 

Fjölmargir minnast fallinnar knattspyrnuhetju, þeirra á meðal Gary Lineker sem skoraði mark Englands í 2-1 tapinu gegn Maradona og félögum 1986.

Reports from Argentina that Diego Armando Maradona has died. By some distance the best player of my generation and arguably the greatest of all time. After a blessed but troubled life, hopefully he’ll finally find some comfort in the hands of God. #RipDiego

— Gary Lineker (@GaryLineker) November 25, 2020

Maradona gekkst á dögunum undir aðgerð vegna blóðtappa í heila. Dr. Leopoldo Luque, læknir argentínska fótboltasnillingsins, sagði í viðtali þann 5. nóvember að aðgerðin hefði gengið vel.

„Hann hló, horfði á mig og tók í höndina á mér. Fyrstu viðbrögð eru jákvæð,“ bætti læknirinn við. Aðgerðin var framkvæmd á spítala í La Plata, fyrir utan höfuðborgina Buenos Aires. 

Umdeildur karakter

Hæfileikar Maradona voru óumdeildir en annað verður sagt um persónu hans og lífsstíl utan vallar. Hann féll á lyfjaprófi á HM í Bandaríkjunum 1994, þegar efedrín greindist í blóði hans, og var sendur heim með skömm. Áður, eða árið 1991, fékk hann 15 mánaða bann eftir að hafa orðið uppvís að neyslu kókaíns. Baráttan við kókaínfíknina setti dökkan svip á seinni hluta ferilsins.

„Ég var og er mjög hamingjusamur. Fótboltinn gaf mér allt sem ég á, meira en ég hefði getað ímyndað mér. Hefði ég ekki átt við þessa fíkn að stríða hefði ég getað spilað mun meira,“ sagði Maradona í nýlegu viðtali í dagblaðinu Clarín.

Fréttin er í vinnslu.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir