2 C
Grindavik
15. maí, 2021

DNB gagnrýndur vegna Samherjamálsins

Skyldulesning

Kjerstin Braathen, forstjóri bankans, segir að DNB taki gagnrýninni mjög alvarlega.

Ljósmynd/DNB

Norska fjármálaeftirlitið hefur sektað norska bankann DNB um 400 milljónir norskra króna, eða því sem nemur um sex milljörðum króna, fyrir verulega og langvarandi annmarka á framfylgni laga um peningaþvætti. Í dag birtir fjármálaeftirlitið einnig skýrslu um Samherjamálið svokallaða en í því máli fær DNB sambærilega gagnrýni. 

NRK greinir frá. 

DNB hefur gengist við því að greiða sektina. 

Í tilkynningu fjármálaeftirlitsins er farið yfir forsögu Samherjamálsins sem er sögð hafa hafist þannig að árið 2019 birti Wikileaks skjöl um Samherja sem bentu til þess að mútur hafi verið greiddar til fulltrúa yfirvalda í Namibíu í gegnum reikninga innan DNB. Þá segir í tilkynningunni að hagnaðurinn af ólöglega áunnum aflaheimildum sem úthlutað var á grundvelli mútna hafi verið fluttur til Samherja í gegnum DNB. Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu í nóvember árið 2019 og var skýrsla með gagnrýnum athugasemdum send DNB í síðastliðnum desembermánuði.

Flest brotin sem fjallað er um í tilkynningu fjármálaeftirlitsins eru fyrnd eða framin í tíð fyrri laga um peningaþvætti. 

DNB hafi vitað af brotalömunum

Að mati fjármálaeftirlitsins hafa aðgerðir gegn peningaþvætti ekki verið í nægilegum forgangi í rekstri bankans. 

„Rannsókn okkar sýnir að verulegir annmarkar hafa verið á eftirfylgni, samhæfingu og innra eftirliti bankans í mörg ár og gallarnir hafa verið víða í bankanum,“ segir í umsögn fjármálaeftirlitsins. 

Þá telur eftirlitið að DNB hafi vitað af brotalömunum í nokkur ár. 

Kjerstin Braathen, forstjóri bankans, segir að DNB taki gagnrýninni mjög alvarlega og að barátta gegn fjárhagsglæpum og peningaþvætti sé eitt mikilvægasta verkefni bankans. Hún telur að slíkt sé í forgangi hjá DNB. 

Norska ríkið á 34% hlut í DNB. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir