7 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

Draumur Önnu varð að veruleika

Skyldulesning

Í gleraugnaversluninni Sjáðu á Hverfisgötunni voru nýlega settar upp myndir sem fanga jólaandann gríðarlega vel. Anna Þóra Björnsdóttir, eigandi verslunarinnar og uppistandari, segist vera gríðarlega ánægð með gluggana.

„Okkur finnst þetta alveg sjúklega flottir gluggar,“ segir Anna í samtali við DV en á meðal þeirra sem eru í gluggunum er tónlistarmaðurinn Högni Egilsson. Þá prýða þau Glódís Guðgeirsdóttir fimleikakona og Steinþór Helgi Arnsteinsson, verti á Röntgen og fyrrum spurningahöfundur og dómari í Gettu betur, einn glugga ásamt syni sínum. Þau Guðmundur Óskar Guðmundsson, bassaleikari í Hjaltalín, og Jónína Guðný Bogadóttir hjúkrunarfræðingur prýða síðan annan glugga ásamt börnum sínum.

Anna segir að hún hafi fengið hugmyndina að gluggunum þegar hún sá að það var farið að tala um bóluefni gegn Covid-19. „Ég fæ stundum svona crazy hugmyndir, eins og þegar það var farið að tala um bóluefni og svona þá hugsaði ég bara í biblíusögurnar. Þannig að sonur minn gerði þennan frábæra frasa sem stendur í glugganum: Sjáðu, vér færum yður mikinn fögnuð.“

Hún segist ekki hafa notið hjálpar auglýsingastofu við gerð glugganna. „Við höfum aldrei verið með auglýsingastofu, þetta er bara ég og minn ADHD heili. Við fengum rosalega flinka stelpu, ljósmyndarann Dóru Dúnu og svo er grafíski hönnuðurinn Bobby Breiðholt. Þau leyfðu bara mínum draumi að verða að veruleika. Ég var þessi ADHD stelpa í Melaskóla sem var alltaf óþekk og var hjá skólastjóranum en mig dreymdi alltaf um að fá að skreyta skólann. Núna fæ ég að skreyta.“

Þá segir Anna að þau í Sjáðu séu rosalega ánægð með árið, þrátt fyrir faraldurinn. „Við erum búin að hafa svolítið mikið lokað út af faraldrinum, við höfum tekið það alvarlega. Okkur er mjög annt um kúnnnana okkar og við viljum ekki að neinn smitist hér inni.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af myndunum sem prýða glugga verslunarinnar:

Guðmundur og Jónína ásamt börnum sínum – Mynd: Dóra Dúna
Glódís og Steindór ásamt syni sínum – Mynd: Dóra Dúna
Högni Egilsson- Mynd: Dóra Dúna
Glódís – Mynd: Dóra Dúna

Innlendar Fréttir