-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Drottinn er vor hirðir !

Skyldulesning

Flestir hljóta að vera farnir að sjá að allt er á hverfanda hveli í þessum veruheimi okkar. Við mannanna börn erum öll sem strá í sterkum vindi hinnar óhjákvæmilegu framvindu. Þar verður engu breytt. Við eigum í raun aðeins eina vörn, en hún nægir, ef menn játast undir hana !

Sú vörn felst sem fyrr í því að leita hælis og athvarfs hjá Drottni, Skapara himins og jarðar – að fá að halda í hans klæðafald. Að trúa því að upp úr djúpi dauða, Drottins renni fagrahvel, eins og Matthías segir í hinu stórbrotna kvæði sínu um hafísinn. Án Guðs Náðar er nefnilega allt vort traust farið og dauðadjúpið það eina sem tekur við okkur !

Allur tími endar ! Allt deyr og eyðist og hverfur og verður að engu. Allar hinar fögru byggingar heimsins og öll mannanna verk eiga eftir að molna niður og líða undir lok. Þar verður engin arfleifð lengur til staðar. Jafnvel himinninn sjálfur á eftir að vefjast saman eins og bókfell. Allt mun bráðna í eldi og ógnarhita þegar þar að kemur !

En til er það sem þolir slíkan eld og heldur velli. Shadrach, Mesach og Abednegó áttu þá vörn í sálum sínum sem varið gat þá gegn slíkum eldi. Þeir treystu Guði og vernd Hans. Menn virðast ekki trúa á slíka vernd í dag eða treysta á forsjá Drottins, en því er til að svara að Hinn Lifandi Guð er Hinn Sami í dag og Hann hefur alltaf verið. Þær forsendur hafa ekki breyst og munu ekki breytast og geta ekki breyst !

En lífið mun rísa í nýjum veruleika eftir það sem koma skal og sólbrunnar auðnir munu þá verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Drottinn hefur allt í Hendi Sinni og hið illa verður endanlega sigrað. Þau úrslit hafa alltaf verið ljós. Sá sigur var að fullu staðfestur á Golgata !

Hver sá sem eyra hefur, eyra sem heyrir, veit þetta og getur fagnað yfir því í hjarta sínu. Að því kemur að Brautin helga mun bíða þeirra sem endurleystir verða við lok daganna. Og gleðin sem mun leika yfir höfði þeirra verður eilíf !

Er það einhver spurning fyrir okkur mannanna börn að fela tímanlega og eilífa velferð okkar í hendur Hans sem gaf okkur lífið, Hans sem er eina vörnin við þeirri eldraun sem framundan er ?

Við hljótum að verjast allri óáran, hvort sem það er núverandi ógn eða þær sem á eftir koma. En gerum það með réttum hætti. Leitum verndar þar sem vernd er að hafa. Hjá Guði vors lands !


Flokkur: Stjórnmál og samfélag |


«
Síðasta færsla

Innlendar Fréttir