Dýrustu hús Hollywood stjarnanna – Engu til sparað og ævintýralegur lúxus en finna þau gleraugun sín? – DV

0
223

Það getur verið freistandi að kíkja á fasteignaauglýsingarnar, kanna hvort hugsanlega sé nóg í buddunni til að stækka við sig eða fara hugsanlega í nýrra?

Stjörnurnar í Hollywood þurfa víst ekki að velta vöngum yfir svoleiðis smáræði enda peningar engin fyrirstaða.

Hér má sjá tíu af dýrustu húsum stjarnanna, ef hús skyldi kalla, enda líkjast sum þeirra frekar hverfi húsa.

Augljóslega myndi varla nokkur maður slá hendi á móti fasteignum sem þessum en þeir sem ítrekað týna gleraugum og bíllyklum á 100 fermetrum ættu kannski við ákveðinn vanda að stríða.

Og smá pæling? Af hverju þurfa Bandaríkjamenn þetta óskaplega mörg salerni?

Taylor Swift –  30 milljón dollarar – 4,2 milljarðar króna

Húsnæði söngkonunnar hæfileikaríku er byggt árið 1934 í í ný-georgískum stíl. Í húsinu eru sjö svefnberbergi, tíu baðherbergi og fjöldi herbergja sem upplögð eru til að taka á móti gestum og efna til gleði.

Í ofanálag er húsið staðsett við einkaströnd með töfrandi útsýni yfir hafið.

Kylie Jenner – 36.5 milljón dollarar – 5,1 milljarður króna

Reyndar er um að ræða sumarhús dívunnar en það er óhætt að segja að það minni engan vegin á sumarbústaði stéttarfélaga, eins og landinn kannski þekkir betur.

Í húsinu eru sjö svefnbergi, fjórtán baðherbergi, bílastæði fyrir 20 bíla, veglegur bar, leikhjaherbergi, kvikmyndasalur, eldhús sem hannað er að þörfum færustu kokka og sundlaug – sem fer reyndar í gegnum húsið.

Kylie heldur oft vegleg teiti í slotinu auk þess sem húsinu fylgja tvö gestahús, sem reyndar eru stærri en stærstu einbýlishús hér á landi. Það ætti því að fara vel um Kim og Kris og alla hina í stórfjölskyldunni.

Ellen DeGeneres – 45 milljónir dollar – 6,3 milljarðar króna

Það er kannski búið að slaufa Ellen en það breytir því ekki að hún býr bara ansi vel. Húsið, sem er hannað í ítölskum Toscana stíl, er á 13 ekrum lands og hannað af hinum heimsþekkta arkitekt Wallace Frost á fjórða áratug síðustu aldar.

Það hlýtur að vera afar afslappandi að heimsækja Ellen því í húsinu er að finna níu arna, gríðarlega stórt bókasafn, tvær sundlaugar eru fyrir utan svo og tennisvöllur.

Meðal nágranna Ellen eru Harry prins og Meghan Markle, sem þó borguðu bara aumingjalegar 14,7 milljón dollara eða tvo milljarða fyrir sinn kofa. Sjálf Oprah er einnig rétt hjá en hennar slot mun hafa verið allmiklu dýrara.

Tiger Woods – 54.5 milljónir dollara – 7,6 milljarðar króna

Golfarinn knái lét hanna fyrir sig sitt hús frá grunni. Það er staðsett í Flórída með glæsilegt útsýni yfir hafið.

Veggir hússins eru að stórum hluta út gleri svo unnt sé að njóta náttúrunnar allt í kring. Á hinni risastóru lóð er að körfuboltavöll, tennisvöll, tvær sundlaugar, heilsulind, fjóra púttvelli og hlaupabraut.

Já, og inni er einnig herbergi sem er einn risastór golfhermir.

Tom Cruise – 59 milljónir dollara – 8,1 milljarður króna

Tom Cruise á afar glæsilegt hús í hrífandi fjallaumhverfi Colorado. Húsið er hvorki meira né minna en 930 fermetrar og eru gluggar frá gólfi til lofts svo unnt sé að njóta útsýnisins á alla vegu. ,,Fjallakofinn” ku einnig vera hálfgert tækniundur enda er öllu húsinu stjórnað í gegnum nýjust tækni í stafrænum húsumsjónarkerfum.

Húsið er úr timbri og náttúrustein og hannað með það í huga að íbúar upplifi ,,sveitasjarma” (þótt fátt við húsið minni á sveitasjarma eins og landinn á að venjast).

Á lóð er að finna hokkívöll, tennisvöll, körfuboltavöll og sérstakt svæði til að stunda á mótorkross.

Cruise ætti því varla að leiðast í sveitinni.

Angelina Jolie – 61 milljón dollara – 8,5 milljarðar króna

Það má hreinlega kalla hýbýli henna íðilfögru Angelinu Jolie, í suðurhluta Frakklands, ævintýrakastala. Það er meira að segja kastaladíki í kringum slotið og geri aðrir betur.

Kastali stórleikkonunnar er á þúsund ekrum lands og er með sína eigin vínekru og sundlaugar.

Inni er 35 svefnherbergi, veislusalur, danssalur, innisundlaug og jafnvel ,,hans” og ,,hennar” líkamræktarstúdíó.

Jay–Z og Beyoncé – 88 milljónir dollara –  12,2 milljarðar króna. 

Ofurparið býr í glæsihýsi í hlíðum Bel Air og er þar að finna hvorki meira né minna en fjórar sundlaugar, fullkomna heilsulind, körfuboltavöll og ,,bílskúr” fyrir hvorki meira né minna en 15 bíla. Reyndar eiga hjúin langtum fleiri bifreiðar en þær eru geymdar í til þess ætluðu geymsluhúsnæði.

George Lucas – 100 milljónir dollara – 14 milljarðar króna

Hið heillandi setur, oft kallað ,,Skywalker Ranch” með tilvísun i stjörnustríðsmyndirnar er í heðfbundnum herragarðsstíl. Þar inni má finna kvikmyndasal með 300 sætum, bókasafn, líkamsræktaraðstöðu og aðstöðu til veisluhalda í dýrari kantinum.

Úti er stór sundlaug auk þess sem Lucas ræktar dýr, til að mynda geitur, hesta og kýr. Hann er einnig með stórt býflugnabú sem er prýðilegt framtak hjá herra Stjörnustríði.

George Clooney – 100 milljónir dollara – 14 milljarðar króna

Sjarmörinn George Clooney og kona hans, Amal, eiga glæsivillu í Lagliio á Ítalíu kallast Villa Oleandra.  Villan er ein sú dýrasta í heimi með heillandi útsýni yfir Como vatn og þykir alveg einstaklega smekklega hönnuð í allað staði enda var tekið tillit til sögu svæðisins og ítalskrar listar við hönnun hússins.

Úti er að sjálfsögðu sundlaug úti en einnig tennisvöllur, risastórt svæði til eldunar þar sem meðal annars er allt til gerðar ekta ítalskra pizza og meira að segja útiileikhús grískum stíl.

Bill Gates – 125 milljónir dollara – 17,5 milljarðar króna

Það tók Gates sjö ár að láta hanna súperheimili sitt, kallað Xanadu 2.0, nákvæmlega að kröfum tæknirisans.

Engu var til sparað og það mun vera hreinlega ótrúlegt að stíga fæti inn í Xanadu. Gates lét meira ða segja flytja inn gullinn og tandurhreinan sand frá eyjum í Karíbahafinu til að fegra strandsvæði sitt. Þar er á bæ er ekki peningaleysið.

Innan veggja hússins er einnig að finna ómetanlegt listaverkasafn, svo að segja á hverjum einasta vegg hangir listaverk eftir heimsþekktan listamann.

Gates lét einnig gera veglega á á lóð sinn og er hún fyllt silungum skyldi tæknigoðið fá löngun til veiða.

Bill Gates er meira að segja með sérstakt herbergi, einvörðungu fyllt trampólínum.

En skyldi hann finna gleraugun sín?