Edda Falak rýfur þögnina – Nauðsynlegt að staldra við eftir „linnulaust áreiti og árásir“ – DV

0
183

Edda Falak segir að nú sé nauðsynlegt fyrir hana að staldra við og hlúa að sjálfri sér eftir linnulausar persónuárásir og áreiti síðustu ára, sem hún hafi mátt þola fyrir það að hafa veitt brotaþolum vettvang til að segja sögur sínar.

Baráttan ekki eingöngu mín Hún skrifar um þetta á Instagram þar sem hún segir að hennar aðalstarf undanfarið hafi verið að gefa brotaþolum rými til að koma sögum sínum á framfæri. Brotaþolum skorti oft félagslegt vald til að geta slíkt. Hluti af vinnu Eddu hafi einnig verið að benda á samhljóm sem komi fram í þessum frásögnum sem sýni hvað vandinn sé kerfislægur.

„Þó svo að ég hafi staðið í stafni baráttunnar þá er ég ekki baráttan og baráttan er ekki eingöngu mín. Hluti af vandamálinu núna, eins og svo oft áður, er að baráttan er persónugerð og þannig er hægt að ýta til hliðar fjölda upplifana sem komið hafa fram og áminningum um djúpstæðan kerfislægan vanda undir þeim formerkjum að mér sem persónu sé ekki treystandi.

Ég hef staðið mikið til ein í þessum stafni. Ég stend auðvitað við hlið ótrúlegs fjölda kvenna sem hefur leyft mér að eiga hlut í þeirra baráttu með því að gefa þeim orðið. Eins stend ég við hlið annarra kvenna sem standa í sömu baráttu á öðrum vettvangi. En ég hef líka verið ein. Ég er ein alla daga þegar fjölmiðlar hringja látlaust og krefja mig svara við öllu og engu. Ég var ein að undirbúa herferðir og viðtöl, mín eigin og annarra og bar á því ábyrgð sjálf. Ég stend undir þeirri ábyrgð.“

Linnulaust áreiti og árásir Edda segir að hún hafi skrifað þennan pistil áður. Síðustu ár hafi hún þurft að þola linnulaust áreiti og árásir fyrir störf sín og þurfi stöðugt að þola neikvæða umræðu um sig og sína persónu. Hún hafi verið uppnefnd, gerð að skessu, dregin fyrir dóm, fengið hótanir og orðið fyrir herferðum fólks sem vill grafa undan henni. Nú sé því nauðsynlegt að Edda staldri við og hlúi að sjálfri sér.

„Staðreyndin er sú að ég hef skrifað þennan pistil áður. Ég skrifaði hann árið 2021, ég skrifaði hann árið 2022 og nú skrifa ég hann aftur árið 2023. Síðastliðin tvö ár hef ég þurft að þola linnulaust áreiti og árásir fyrir það eitt að veita þolendum ofbeldis vettvang til að segja sína sögu. Ég þarf stöðugt að þola neikvæða umræðu um mig sem persónu á opinberum vettvangi. Ég hef verið uppnefnd og gerð að skessu af heilu bæjarfélagi, dregin fyrir dóm vegna starfa minna, mér hafa borist hótanir um ofbeldi og ókunnugir hafa bankað upp á heima hjá mér. Nafnið mitt hefur verið notað yfir 700 sinnum í fréttir og fyrirsagnir. Fólk hefur með einbeittum vilja reynt að grafa upp einhvern skít, skáldað hann upp þegar hann finnst ekki, rýnt í gamlar ritgerðir, grafið undan mér, og reynt að mála mig upp sem ótrúverðuga og í tortyggilegu ljósi. Allt saman þöggunartilburðir sem við þekkjum alltof vel í okkar samfélagi.

Eftir allt sem á undan er gengið er nauðsynlegt fyrir mig að staldra við og hlúa að sjálfri mér.“