Svo virðist sem heilinn sé ekki með neina sársaukaskynjara. Þetta vekur upp spurninguna af hverju höfuðverkur er þá eitthvað sem við finnum fyrir? Höfuðverkur er eitthvað sem flestir, ef ekki allir, finna fyrir öðru hvoru. Sumir fá oft höfuðverk og aðrir örsjaldan. Höfuðverkur getur tekið á sig ýmsar myndir, verið mildur eða skelfilegur, varað í nokkrar mínútur eða nokkra daga.
Þegar maður finnur til í höfuðkúpunni er freistandi að hugsa með sér að það hljóti að vera heilavefurinn sem finnur fyrir sársauka. En það er ólíklegt.
Það er kannski ákveðin kaldhæðni sem felst í því að heilinn skynjar sársauka alls staðar í líkamanum en virðist ekki vera með sársaukaskynjara sjálfur.
Höfuðverkur getur verið afleiðing undirliggjandi veikinda, til dæmis vegna bólgu í ennisholum, lágs blóðsykursgildis eða höfuðáverka. En í heildina tekið er höfuðverkur „staðvilluverkur“ en það þýðir að þú finnur fyrir verknum á öðrum stað en hann er í raun og veru. Þetta sagði Dr Charles Clarke, taugafræðingur og höfuðverkjasérfræðingur við Vanderbilt Healt í Tennessee í Bandaríkjunum, í samtali við Live Science.