2.3 C
Grindavik
27. janúar, 2023

Efnahagsforsendur breyst

Skyldulesning

Kristrún Frostadóttir, alþingismaður.

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að efnahagsforsendur hafi breyst mjög með aukinni verðbólgu en ekki sé tekið mikið mið af því í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 sem kynnt var í dag.

Kristrún situr í fjárlaganefnd Alþingis og á eftir að fá tækifæri til að fara betur yfir áætlunina en mbl.is spurði hana hvað henni þætti athyglisverðast við fyrstu sýn. 

„Eitt af því sem vekur athygli mína er að ekki gert ráð fyrir sértækum aðgerðum sem taka mið af verðlagsþróun út þetta ár og næsta ár. Við erum að sjá verðbólguskot núna sem gæti lifað út árið. Efnahagsforsendur hafa breyst mjög og verðbólguspáin er orðin 6% fyrir árið í heild sinni.

Þetta er tvöföld verðbólga miðað við það sem við var búist á þessu ári. Verði ekki ráðist í sértækar aðgerðir fyrir fólk sem finnur sérstaklega fyrir þessari verðbólgu, þá er veruleg hætta á kjarasamningshækkunum í haust sem myndu leka út í launakostnað hins opinbera. Það muni þá setja þrýsting á útgjöld út líftíma þessarar fjármálaáætlunar,“ segir Kristrún og bendir á að OECD hafi lagt til sértæk úrræði vegna verðlagsþróunar.

Umfangið að breytast á tímabilinu

„Þar sem við erum í þessu sérstaka efnahagsástandi þá slær mann aðeins að ætlunin virðist bara vera að sigla í gegnum þetta á án þess að það þurfi neitt til. Þetta er ekki í samhengi við efnahagsráðgjöf víða í kringum í okkur. Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur til dæmis lagt til að farið sé í sérstæk úrræði til að stoppa af verðlagsspíral.“

Kristrún segir að umfang ríkisrekstrarins muni minnka talsvert á kjörtímabilinu sé mið tekið af fjármálaáætluninni. 

„Umfang ríkissjóðs og hins opinbera er að breytast á tímabili þessarar fjármálaáætlunar. Það er langtímaþróun hjá þessari ríkisstjórn og heldur áfram núna. Ef maður reiknar sig bara niður á árið 2027 þá verða tekjur og gjöld ríkissjóðs og líka hins opinbera, sem hlutfall af hagkerfinu, þau lægstu á öldinni undir lok þessa tímabils,“ segir Kristrún. 

„Þetta er meðvituð pólitísk ákvörðun sem er verið að taka um að minnka umfang ríkisins. Þetta kann að vera pólitík sumra en ég hygg að þetta sé ekki pólitík allra sem þarna sitja. Þetta er einfaldlega ekki í samræmi við það sem er boðað í stjórnmálasáttmálanum en þar á að betrumbæta hitt og þetta.“

Fjárfestingageta sveitarfélaga áhyggjuefni

Kristrún segir fjárfestingagetu sveitarfélaganna vera áhyggjuefni þar sem tekjurnar fari gjarnan að miklu leyti í reksturinn. 

„Maður á eftir að rýna betur í fjárfestingarnar en ekki eru boðaðar miklar breytingar á fjárfestingum frá síðustu fjármálaáætlun. Gagnrýni hefur til að mynda komið frá fjármálaráði og fleiri umsagnaraðilum undanfarið ár að fjárfesting hins opinbera sé ennþá undir sögulegu meðaltali.

Þótt gefið hafi verið í undanfarin ár þá var bara svo mikill uppsafnaður skammtur. Þar er sérstakt áhyggjuefni hve illa sveitarfélögin standa hvað varðar fjárfestingu. Partur af því er lengri saga um að verkefni hafa færst frá ríkisvaldinu til sveitarfélaga á undanförnum áratug en þeim hafi fylgt allt of lítið fjármagn. Stærstur hluti tekna sveitarfélagana hefur farið í að greiða fyrir rekstur og minna er þá eftir fyrir fjárfestingu.“

Varðandi húsnæðismál nefnir Kristrún að minnka eigi stofnframlög fyrir ódýrar íbúðir. 

„Eitt úrræði hefur nýst gífurlega vel sem er stofnframlög fyrir ódýrar íbúðir. Strax á næsta ári er verið að minnka þessa upphæð úr 3,8 milljörðum í 1,8 milljarða. Það má vel vera að þau ætli að nýta fjármagnið í eitthvað annað.

Ég bara veit það ekki á þessum tímapunkti en þetta er alla vega eftirtektarvert. Þetta er úrræði sem hefur verið unnið með sveitarfélögum og verkalýðshreyfingunni til að byggja leiguíbúðir sem eru undir markaðsverði. Þetta hefur gengið mjög vel og þess vegna veltir maður fyrir sér hvað þau ætla sér í þessum málum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir