8 C
Grindavik
23. apríl, 2021

„Ég veit ekki hvernig það er hægt að orða þetta skýrar“

Skyldulesning

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur að skilaboð sóttvarnayfirvalda og almannavarna í baráttunni gegn Covid-19 hafi verið mjög skýr.

Hann viti ekki hvernig hægt hefði verið að orða hlutina skýrar en segir það alveg örugglega rannsóknarverkefni hvernig best sé að koma skilaboðum til fólks í faraldri sem þessum.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Var Þórólfur spurður að því hvort hann teldi fólk nú leyfa sér meira því það hefði minni áhyggjur eða hvort það væru skilaboðin sem væru ómarkviss að því leyti að staðan væri góð en yfirvöld hafi áhyggjur af framhaldinu.

Var spurningin í samhengi við þá staðreynd að fólk er töluvert á ferðinni núna sem sést til dæmis á umferðinni og fjölda fólks í verslunarmiðstöðvum og miðbænum um helgina.

„Það er erfitt að segja til um það nákvæmlega hvað það er sem gerir það að verkum að fólk er kannski aðeins farið að slaka á. Ég held að skilaboðin okkar hafi verið mjög skýr, ég veit ekki hvernig það er hægt að orða þetta skýrar. Við erum að biðla til fólks að hegða sér á ákveðinn máta og gera fólki grein fyrir því að faraldurinn gæti farið á skrið eftir um það bil eina viku ef fólk gætir ekki að sér. En þetta er alveg örugglega rannsóknarverkefni sem þyrfti að skera úr um, hvernig er best að koma skilaboðum til fólks,“ sagði Þórólfur og bætti við að það væri heldur ekki góð leið að mála myndina einhvern veginn öðruvísi en hún væri.

„Maður verður bara að vera sanngjarn í þeirri túlkun sem tölurnar eru að segja okkur en þetta er til umhugsunar, það er alveg hárrétt.“

Fréttin verður uppfærð.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir