Sam Allardyce, betur þekktur sem Stóri Sam, stýrir Leeds United í fyrsta sinn í dag er liðið tekur á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni.
Allardyce, sem hefur marga fjöruna sopið í knattspyrnuheiminum, fær það verkefni að reyna halda sæti Leeds United í deild þeirra bestu þegar að aðeins fjórar umferðir eru eftir af yfirstandandi tímabili.
Í viðtali við Sky Sports segir Allardyce, sem margir héldu að væri hættur knattspyrnuþjálfun, frá því hvernig eiginkona hans trúði því ekki þegar að hann tjáði henni að kallið væri komið frá Leeds United.
„Hún hélt að ég væri að atast í sér,“ segir Allardyce í viðtali við Sky Sports. Tækifærið til að taka við stjórnartaumunum hjá Leeds United hafi verið eitthvað sem hann vildi ekki láta fram hjá sér fara.
Það var því með blessun eiginkonu hans, en þau hafa verið gift í 49 ár, sem Allardyce ákvað að stökkva til og reyna halda Leeds United í ensku úrvalsdeildinni.
„Þó ég sé 68 ára gamall og líti út fyrir að vera gamall er enginn sem stendur mér framar í knattspyrnufræðunum. Hvorki Pep Guardiola, Jurgen Klopp eða Mikel Arteta. Þeir gera það sem ég geri og öfugt.“
Allardyce hefur fulla trú á getu sinni sem knattspyrnustjóri, enda margreyndur í bransanum, og fyrsti leikur hans með Leeds United fer fram seinna í dag þegar að liðið tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City.
Hann veit af hættunni sem fylgir Manchester City, liði sem gæti með sínum leikmannahópi stillt upp tveimur sterkum liðum.
Aðspurður hvort hann gæti leikið eftir afrek Guardiola hjá Manchester City var ekkert hik á Allardyce.
„Auðvitað. Leikmennirnir gera þig að góðum knattspyrnustjóra og þjálfara. Þitt hlutverk er að geta átt í samskiptum við þessa leikmenn. Ég myndi eiga góðan nætursvefn ef ég væri með þessa leikmenn.“