Eiginkonan segist hafa gengið í ótrúlega gildru í miðjum skilnaði – DV

0
137

Bandaríski húðsjúkdómalæknirinn Yue Emily Yu gæti átt átta ára fangelsisdóm yfir höfði sér verði hún sakfelld fyrir að reyna að eitra fyrir eiginmanni sínum eins og hann heldur fram.

Sjálf heldur Emily því fram að eiginmaðurinn hafi leitt hana í gildru á meðan hjónin stóðu í miðjum skilnaði og forræðisdeilu um börn þeirra.

Emily er ákærð fyrir að hella stíflueyði í tebolla sem eiginmaður hennar, Jack Chen, drakk úr. Emily á erfitt með að neita því enda hafði Jack komið fyrir eftirlitsmyndavél í eldhúsinu sem náði öllu á myndband. En Emily heldur því fram að hún hafi gengið í gildru.

Þannig hafi hjónin glímt við mauraplágu í eldhúsinu um nokkra hríð og Jack beðið hana um að útbúa gildru fyrir maurana. Hann hafi sagt henni að hella stíflueyði í glasið í þeirri von að maurarnir færu ofan í glasið. Þetta hafi hún gert án þess að átta sig á því að myndavél fylgdist með öllu. Jack hafi svo komið og fengið sér sopa úr bollanum, að því er virðist grunlaus með öllu.

Jack sótti um skilnað frá eiginkonu sinni í ágúst í fyrra og sama dag fór hann fram á nálgunarbann. Réttarhöld standa nú yfir í málinu gegn Emily og gæti hún átt átta ára fangelsisdóm yfir höfði sér verði hún sakfelld. Jack er nú með forræði yfir börnunum en Emily er heimilt að hitta þau tvisvar í viku undir eftirliti.