7.3 C
Grindavik
24. október, 2021

Eiginmaður Söru Heimis keypti stera fyrir 30 milljónir á mánuði – ,,Hann faldi seðla í boxpúðum, ljósakrónum og á fleiri stöðum um alla íbúð“

Skyldulesning

Vaxtarræktarkonan og hjúkrunarfræðineminn Sara Heimisdóttir, einnig þekkt sem Sara Piana, er nýflutt aftur til Íslands eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum.

Sara vakti mikla athygli hér á landi þegar greint var frá sambandi hennar og vaxtarræktarkappans Rich Piana. Þau giftu sig í september 2015. Þau skildu að borði og sæng árið 2016. Hann veiktist og lét lífið í ágúst 2017.

Sara er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar og segir frá skrautlegu sambandi sínu við Rich Piana. Meðal annars frá því þegar brotist var inn í húsið þeirra á meðan þau voru að gifta sig í Las Vegas.

Bundinn í gólfinu í 8 tíma

,,Sonur vinkonu okkar var í húsinu okkar til að passa hundana á meðan við vorum í burtu. En bókstaflega á sama tíma og við vorum í athöfninni að gifta okkur réðust menn inn í húsið sem ,,teipuðu” fyrir munninn og hendurnar á stráknum og skildu hann eftir á gólfinu á meðan þeir sóttu verðmæti.

Þeir reyndu meira að segja að taka stóran peningaskáp af efri hæðinni sem hefur líklega verið nærri tonn að þyngd og þeir eyðilögðu veggi og gólf við að reyna að koma honum út úr húsinu.

Þeir voru í 8-9 klukkutíma að athafna sig í húsinu, sem við bæði sáum í öryggisvélum í húsinu eftir á og líka af frásögn aumingja stráksins sem lá þarna bundinn á gólfinu allan tímann. Hann náði að skríða inn til nágrannans eftir að þeir voru farnir og fá hann til að hringja á 911.

Það kom í ljós eftir á að innbrotið var skipulagt af manni sem hafði tengst Rich og var ósáttur við hann. Þessi maður hafði setið í fangelsum og tengdist eiturlyfjahringjum í Mexíkó og í raun bara einhver sem þú vilt ekki hafa á móti þér. Hann hafði keypt stera af Rich og þekkti því íbúðina okkar.”

Atburðurinn hafði mikil áhrif á Söru og Rich, en hún fékk í kjölfarið vægt taugaáfall og Rich varð vænisjúkari en áður.

,,Þetta var hræðilegt og það var gjörsamlega allt í rúst þegar við komum til baka. Mér leið eins og ég væri aftur kominn inn í hringavitleysuna sem ég hafði verið í áður en ég flúði Ísland. Rich gekk um með byssu á sér eftir þennan atburð af því að hann óttaðist alltaf það versta.“

Mikil neysla lyfja

Sara lýs­ir því hvernig hlutirnir hafi í raun farið hratt niður á við eftir þetta og að álagið hafi í lokinn verið orðið svo mikið að hún var far­in að taka ró­andi lyf reglulega til að þrauka.

„Þetta var orðið rosa­legt þarna í end­ann. Maður var vinn­andi mjög mikið og rétt náði að sofa. Síðan fór maður að eiga erfitt með svefn og þá var maður far­inn að taka svefn­töfl­ur. Rich var rosalega háður verkjalyfjum og áður en maður vissi af var maður far­inn að taka verkjalyf líka. Ég var orðin útúrstressuð af álagi og var í lokin far­in að taka Xanax vegna kvíða og stundum var þetta orðið svo mikið að manni leið bara eins og maður væri að deyja,“ seg­ir Sara.

Rich Piana notaði mikið af ster­um, verkjalyfj­um og öðrum lyfj­um og seg­ir Sara að hann hafi verið á mjög slæm­um stað og það hafi verið mjög erfitt að vera í sam­skipt­um við hann. Hún seg­ir að þau hafi verið far­in að ríf­ast mjög mikið og öll neyslan hafi breytt persónuleika hans, sérstaklega Oxycontin:

,,Þetta breyt­ir fólki svo rosa­lega og er svo svaka­lega ávanabind­andi. Þegar maður reyn­ir að hætta taka þetta þá ertu í svo mikl­um fráhvörfum að þú ert bara svitn­andi og fár­veik­ur, þér er kalt eða heitt til skipt­ist. Þetta er bara hræðilegt. Það er mjög auðvelt að verða háður þessu,“ seg­ir Sara.

,,Þetta var bókstaflega úti um allt“

Hún segist ekki hafa hugsað sér þessa tegund af líferni þegar þau kynntust, en það hafi þróast hægt og rólega í verri og verri átt. Ekki síst kaup, sala og neysla á sterum og öðrum efnum:

,,Hann var með vin sinn sem framleiddi sterana, alls konar tegundir og kom alltaf með þá. Hann keypti stera af þessum strák fyrir 30 milljónir íslenskar mánaðarlega. Og seldi það svo áfram til annarra. Það voru sterakassar úti um alla íbúð og þegar verst var gat maður ekki þverfótað fyrir þessu helvíti. Þetta var bókstaflega úti um allt. Svo kom fólk heim til okkar eða hitti á hann í ræktinni til að kaupa af honum. Hver og einn aðili keypti mjög mikið magn, sem þeir voru síðan sjálfir að selja. Auðvitað var ég ekkert ánægð með þetta og maður er ekki öruggur með þetta í húsinu. Maður veit aldrei hvort eða hvenær löggan kemur og bara að ég sé á staðnum þýðir að ég sé ekki í góðum málum,” segir Sara, sem segir að þetta hafi smátt og smátt aukist og að hún hafi verið orðin allt of samdauna þessu líferni.

,,Ég komst ekkert að þessu í byrjun sambandsins, það var ekki fyrr en við byrjuðum að búa saman sem þetta kom upp á yfirborðið og var í miklu miklu minna magni fyrst um sinn. En strákurinn sem var að búa þetta til fyrir hann var með verksmiðju til að gera þetta allt saman sem að ég kom aldrei inn í. En svo sá ég bara magnið þegar þetta kom til okkar mánaðarlega og það var ekkert smáræði. Svo fylgir þessu auðvitað mikið reiðufé og hann geymdi peninga úti um allt. Hann faldi seðla í boxpúðum, ljósakrónum og á fleiri stöðum um alla íbúð. Hann var mjög á móti því að grafa peningana, þannig að þetta var falið alls staðar þar sem hægt var að geyma peninga.”

Hugsar hlýlega til Rich í dag

Sara segir að á endanum sé þetta allt saman lífsreynsla og að hún sjái ekki eftir neinu og hugsi hlýlega til Rich Piana:

,,Þegar ég var að fara frá Kaliforníu fór ég að leiðinu hans og talaði við hann og fyrirgaf honum og þakkaði fyrir alla góðu tímana sem við áttum saman og allt það sem ég lærði af þessu öllu saman.”

Hún segist samt afar glöð yfir því að vera komin aftur til Íslands eftir öll þessi ár:

,,Það tók mig mánuð að komast heim. Öllum flugum alltaf frestað og ástandið í Bandaríkjunum er bara ekki skemmtilegt. Þannig að ég var mjög feginn þegar ég komst loksins í burtu þaðan,” segir Sara, sem lærir nú Hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri.

,,Það er bara æðislegt að vera komin aftur heim og ég er mjög bjartsýn fyrir framtíðinni og hlakka til þess að byrja þennan nýja kafla.”

Í þættinum ræða Sölvi og Sara um tímabilið þegar hún fór langt inn í Fitness-heiminn eftir að hún flutti til Bandaríkjanna og síðan frá skrautlegu líferni sínu með Rich Piana, sem oft var öðruvísi en það virkaði út á við. Sara lærir nú hjúkrunarfræði og hlakkar til næsta kafla í sínu lífi, eftir að hafa fengið margfaldan æviskammt af dramatík, eins og hún segir sjálf.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir