Eimskip hefur fest kaup á 1.025 gámaeininga flutningaskipi sem bætist í flota félagsins. Ljósmynd/Eimskip
Eimskip og Ernst Russ AG í Þýskalandi hafa í gegnum félagið Elbfeeder Germany keypt 1.025 gámaeininga skip sem smíðað var árið 2009, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Eimskips.
Skipið muni bera nafnið Bakkafoss og mun það vera sjötta skipið í sögu félagsins sem ber það nafn.
„Með kaupunum stækka fyrirtækin enn frekar vel samsett eignasafn sitt í gámaskipum, en nú þegar eru sjö gámaskip í sameiginlegri eigu félaganna í gegnum fyrirtækin Elbfeeder og Feederstar. Eimskip mun leigja skipið og áætlað er að það komi í þjónustu félagsins á öðrum ársfjórðungi og muni sinna siglingum á Norður-Ameríkuleið félagsins,“ segir í tilkynningunni.
Nú eru fjögur skip á Norður-Ameríkuleið Eimskips og með komu nýja skipsins er gert ráð fyrir að þeim fækki um eitt, en á sama tíma halda sambærilegri afkastagetu í siglingakerfinu.